Dómurinn hafi engar sjálfkrafa afleiðingar

mbl.is/​Hari

„Dómur frá Mannréttindadómstólnum er dómur frá alþjóðlegum dómstóli og hann fjallar um brot á þjóðréttarskuldbindingum Íslands, en hann breytir í engu dómum, ákvörðunum eða lögum sem sett hafa verið hér á landi,“ svarar Björg Thorarensen, prófessor við lögfræðideild Háskóla Íslands, spurð um mögulegar afleiðingar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í máli sem Guðmundur Andri Ástráðsson höfðaði gegn íslenska ríkinu vegna skipunar dómara við Landsrétt.

Dómurinn, sem birtur var í gærmorgun, sneri einkum að skipun Arnfríðar Einarsdóttur í embætti dómara við Landsrétt, en hún dæmdi í máli Guðmundar Andra.

Auk Arnfríðar voru þau Ásmundur Helgason, Jón Finnbjörnsson og Ragnheiður Bragadóttir skipuð dómarar í því ferli sem MDE hefur með dómi sínum sagt frábrugðið ákvæðum laga um skipun dómara, sem þeir segja brot gegn ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu.

Endurupptaka

Björg segir dóminn varpa fram spurningum um þau mál sem þessir dómarar við Landsrétt hafa dæmt í og jafnvel í víðara samhengi.

Þá segir hún að ekkert gerist sjálfkrafa hvað það varðar, heldur þurfa málsaðilar í hverju máli fyrir sig að taka ákvörðun um að fara fram á endurupptöku og senda beiðni þess efnis til endurupptökunefndar. Nefndin mun síðan meta beiðnina og taka afstöðu til hennar.

„Aðilar máls verða að vega og meta það hver fyrir sig hvaða líkur séu á því að fá einhverja aðra niðurstöðu ef málið verður endurupptekið og dæmt af öðrum dómurum,“ útskýrir prófessorinn. Hún segir jafnframt að það sé ekkert sem gefur til kynna að efnisleg niðurstaða Landsréttar í máli Guðmundar Andra hafi verið einhver önnur vegna setu þessa tiltekna dómara.

„Það þarf að fara yfir þennan dóm vel og kannski fyrst og fremst að skoða framhaldið. Sérstaklega hvaða áhrif þetta hefur á þessa fjóra dómara og hvernig það stenst kröfur MND að þeir dæmi áfram í málum,“ segir Björg sem bendir jafnframt á að málið snúi ekki að brotum á ákvæði um rétt til réttlátrar málsmeðferðar, heldur að skipun dómstóla skuli ákveðin með lögum.

Klofnaði

Dómurinn var klofinn og töldu fimm dómarar ríkið brotlegt en tveir skiluðu sératkvæði og töldu ríkið ekki hafa brotið gegn sáttmálanum. Sagði minnihlutinn dóminn umfram tilefni og að of mikilli hörku væri beitt við túlkun málsatvika.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagði í gær að verið sé að fara yfir dóminn í ráðuneytinu og skoðað verði hvort málinu verði vísað til yfirréttar.

Athygli vekur að dómurinn segir ljóst að Alþingi hafi ekki tryggt réttmæta þinglega meðferð þegar ákveðið var að greiða atkvæði um skipun 15 dómara við Landsrétt í einu lagi en ekki um hvert embætti. „Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra lagði málið þannig upp að hægt væri að greiða atkvæði um hvert dómaraefni fyrir sig,“ sagði Birgir Ármannsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Hann sagði að það hefði verið ákvörðun Unnar Brár Konráðsdóttur, þáverandi forseta Alþingis, í samráði við alla þingflokksformenn að hafa þennan háttinn á. Hverjum þingmanni hefði verið í lófa lagið að gera athugasemd við það, sem enginn gerði. Forseti Íslands gaf út yfirlýsingu um að mistök hefðu ekki átt sér stað við undirbúning og tilhögun atkvæðagreiðslunnar um málið á Alþingi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »