Loka fyrir sölu á rútuferðum

Tæplega 170 bílstjórar hjá fyrirtækinu munu fara í verkfall en …
Tæplega 170 bílstjórar hjá fyrirtækinu munu fara í verkfall en það eru um 85% af bílstjórum fyrirtækisins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta hefur töluvert miklar afleiðingar. Stóru verkefnin okkar eru dagsferðir og við erum búin að loka fyrir sölu á ferðum á þessum dögum,“ segir Björn Ragnarsson framkvæmdastjóri Kynnisferða um fyrirhugað verkfall bílstjóra fyrirtækisins 22., 28. og 29. mars.

Félagar í VR samþykktu verk­fallsaðgerðir í gær og munu fé­lags­menn VR í hóp­bif­reiðafyr­ir­tækj­um á fé­lags­svæði VR og í gistiþjón­ustu á höfuðborg­ar­svæðinu og í Hvera­gerði leggja niður störf nema samn­ing­ar ná­ist fyrir þann tíma. Einnig höfðu félagar í Eflingu greitt atkvæði með verkfalli.   

Tæplega 170 bílstjórar hjá fyrirtækinu munu leggja niður störf en það eru um 85% af bílstjórum fyrirtækisins. Hópbifreiðafyrirtækið Reykjavík Excursion býður upp á fjölmargar dagsferðir um land allt. Björn áætlar að innkoma á degi hverjum sé á bilinu 15-20 milljónir króna. Hann bendir á að verkfallið muni hafa viðtæk áhrif og ná einnig til fleiri fyrirtækja ef fólk hættir við að koma til landsins.    

„Það má líka búast við því að það verði minna að gera þessa daga því mörg hótel hafa lokað fyrir nýjar bókanir þessa verkfallsdaga. Það má búast við færri ferðamönnum til landsins þessa daga,“ segir Björn. 

„Ætlum ekki að fremja nein verkfallsbrot“

Hann vonast til að verkfallsvarsla tryggi að þeir starfsmenn sem verkfallið nái ekki til fái að sinna sínu starfi óáreittir. „Við treystum því að verkalýðsfélögin gangi heiðarlega til verks. Við ætlum ekki að fremja nein verkfallsbrot hér og treystum því á móti að verkalýðsfélögin leyfi þeim að vinna sem mega vinna,“ segir Björn.

Spurður hvort tilefni sé til að ætla að verkalýðsfélögin standi í vegi fyrir því svarar hann því til að það hafi „komið fyrir í þeim verkföllum sem voru áður að slíkt hafi komið upp en ég geri ekki ráð fyrir að það verði núna,“ segir Björn.   

Björn telur ekki líklegt að verkfallsbrot verði framin í ljósi þess að 52,3% félagsmanna í VR samþykktu verkfallsaðgerðir en 45,3% höfnuðu þeim, 2,4% tóku ekki afstöðu. Hann gagnrýnir atkvæðagreiðslu VR um verkfallsaðgerðir fyrir að hún hafi ekki verið eins gagnsæ og atkvæðagreiðsla Eflingar en þeir félagsmenn gátu kosið um sjö tillögur. 

Reyna að tryggja að flugáhöfn komist út á völl

Eitt af þeim verkefnum sem unnið er að því að leysa núna er akstur áhafnar Icelandair til og frá Keflavíkurflugvelli sem fyrirtækið sinnir. „Við reynum að finna lausn á því svo töf verði ekki á flugi,“ segir Björn. 

Reykjavík Excursion rekur tvö félög undir fyrirtækinu, annað er Hópbifreiðar Kynnisferða og hitt er Ferðaskrifstofa Kynnisferða sem er utan um sölu á ferðunum, sinnir markaðsmálum o.fl. Þeir félagsmenn Eflingar og VR sem starfa í Hópbifreiðum Kynnisferða fara í verkfall en ekki hinir. Björn tekur fram að Kynnisferðir séu til dæmis í skárri stöðu en önnur sambærileg ferðaþjónustufyrirtæki þar sem öll þjónusta er undir sama hatti. 

Björn Ragnarsson framkvæmdastjóri Kynnisferða.
Björn Ragnarsson framkvæmdastjóri Kynnisferða. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is