Rakaskemmdir fundust í Fannborg

Rakaskemmdir fundust í dag í húsnæðinu sem Reykjavíkurborg hyggst leigja …
Rakaskemmdir fundust í dag í húsnæðinu sem Reykjavíkurborg hyggst leigja undir starfsemi Fossvogsskóla.

Í dag kom í ljós að rakaskemmdir eru í húsnæðinu við Fannborg 2, sem áður hýsti bæjarskrifstofur Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborg hyggst taka á leigu undir nemendur úr Fossvogsskóla út skólaárið. Foreldrum nemenda var tjáð þetta á fundi síðdegis í dag, sem fram fór í Réttarholtsskóla.

Reykjavíkurborg er farin að leita að annarri lausn, ef vera skyldi að ekki yrði hægt að notast við húsnæðið í Fannborg, en verkfræðistofan Verkís mun á morgun gera úttekt á húsnæðinu.

„Við fórum þarna í dag með heilbrigðiseftirliti Kópavogsbæjar og við þá skoðun komu í ljós rakaskemmdir við glugga og í ljósi þess þá finnst okkur bara eðlilegt að fá úttekt á því. Þó að það sé raki er ekki þar með sagt að það sé eitthvað að. Þetta er gamall leki í gluggum og eðlilega viljum við bara hafa fullvissun um að allt sé í góðu lagi,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is.

Niðurstöður í því koma ekki fyrr en á mánudaginn, svo borgin undirbýr nú varaplan, ef það verður eitthvað úr þeirri úttekt sem gefur tilefni til þess að ekki sé hægt að ljúka skólavetri barnanna í Fossvogsskóla í Fannborg í Kópavogi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert