Sá fimmti með mislinga á batavegi

Bólusetning gegn mislingum.
Bólusetning gegn mislingum. mbl.is/Hari

Fimmti einstaklingurinn sem greindist með mislinga er á batavegi. Þetta staðfestir Pétur Heimisson framkvæmdastjóri lækninga á Heilbrigðisstofnun Austurlands. Þrír af þeim fimm einstaklingum sem hafa greinst með mislinga á Íslandi síðasta mánuðinn eru búsettir á Austurlandi hinir tveir eru á höfuðborgarsvæðinu. 

„Líðanin var batnandi á mánudagsmorgun,“ segir Pétur. Einstaklingurinn er starfsmaður á leikskóla á Egilsstöðum og í kjölfarið þurftu fjórir starfsmenn á leikskólanum að halda sig heima þar sem ekki lágu fyrir gögn um hvort þeir væru bólusettir. Alls eru um 20 manns á Austfjörðum í heimasóttkví vegna mislinga, að því er fram kemur á vef Austurfréttar

Fleiri smit „kæmu ekki á óvart“

„Það kæmi mér ekkert á óvart því við höfum vísbendingar um að þetta hafi verið smitandi eintak,“ segir Pétur spurður hvort hann telji líklegt að fleiri smit eigi eftir að koma upp. 

Ung börn og fullorðnir sem ekki hafa fengið neina bólusetningu gegn mislingum eru í forganshópi að fá bólusetningu á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu. „Bólusetningar hafa gengið vel. Mér finnst fólk sýna því góðan skilning að það er ákveðin forgangsröðun. Við leggjum áherslu á að tryggja að flestir séu bólusettir a.m.k. einu sinni,“ segir Pétur. 

Enn eru til rúmlega 450 skammtar af bóluefni gegn mislingum á Austurlandi. Pétur telur ekki ástæðu eins og er að óska eftir meira af bóluefni en von er á 1.000 skömmtum af bóluefni til landsins í dag. Hann tekur þó fram að slík ákvörðun sé tekin í samráði við sóttvarnarlækni.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert