Sjötta mislingasmitið mögulegt

Grunur leikur á sjötta mislingasmitinu.
Grunur leikur á sjötta mislingasmitinu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

19 mánaða drengur greindist mögulega með mislinga í Reykjavík í gær. Hann hafði verið bólusettur fyrir þremur vikum. Hann veiktist með mislingalíkum útbrotum mánudaginn 11. mars en var einkennalaus að öðru leyti. Þetta kemur fram á vef embættis landlæknis. 

Drengurinn var ekki í leikskóla en í heimapössun hjá foreldrum og ættingjum. Það er því ekki saga um samgang við einstakling sem smitaður var af mislingum svo vitað sé.

Hugsanlega er hér um útbrot af völdum bólusetningarinnar að ræða en vitað er að bólusetningar geta valdið mislingalíkum útbrotum í 5% tilfella. Litlar líkur eru á smiti til annarra í slíkum tilfellum. Drengurinn verður hafður í einangrun í 4–5 daga en vitað er að einstaklingar með mislinga hætta að smita 4–5 dögum eftir að útbrot koma fram.

Fleiri sýni eru til skoðunar hjá veirudeild Landspítala og niðurstöðu að vænta síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert