„Þetta er ólíðandi orðræða“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var það eina í stöðunni fyrir Sigríði Andersen sem ber höfuðábyrgð á því að núna er heilt dómstig í uppnámi. Ég sá ekki hvernig væri hægt að greiða úr þessu risavaxna vandamáli sem réttarkerfið og réttarríkið á Íslandi stendur frammi fyrir með hana í fararbroddi.“

Þetta segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is innt eftir viðbrögðum hennar við þeirri ákvörðun Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra að stíga til hliðar á meðan brugðist verður við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu frá því í gær þar sem meðal annars var fjallað um skipun dómara við Landsrétt sem átti sér stað á árinu 2017 í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

„Mér finnst það sömuleiðis mikið áhyggjuefni að hlusta á orðræðuna hjá Sigríði Andersen og Bjarna Benediktssyni [fjármálaráðherra], hvernig þau ráðast að Mannréttindadómstóli Evrópu til pólitísks heimabrúks með því að fara með staðlausa stafi og dylgjur um dómstólinn og ýmsar rangfærslur þar um. Meðal annars að verið sé að nota hann í pólitískum tilgangi. Þetta er ólíðandi orðræða hjá ráðherrum landsins,“ segir hún.

„Sömuleiðis að Bjarni Benediktsson skuli velta fyrir sér í beinni útsendingu að segja sig úr dómstólnum og fara þannig að fordæmi Dana og Breta,“ segir Þórhildur og vísar einnig vangaveltum Bjarna á bug um það hvort Íslendingar hafi afsalað sér dómsvaldi til erlends dómsvalds. Þannig taki hann þátt í „pólitískum skollaleik“ dómsmálaráðherra „með því að gera dómstólinn að blóraböggli fyrir hennar embættisafglöp“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert