Ungt fólk stendur saman

Ljósmyndari Elías Arnar

Ungt fólk í tæplega 100 löndum í yfir 1.200 borgum og bæjum ætlar að taka sig saman og sameinast í baráttunni með loftslaginu á föstudaginn og eru íslensk ungmenni þar ekki undanskilin. 

„Föstudaginn 15. mars mun fjórða verkfallið fyrir loftslagið eiga sér stað hér á landi. Að þessu sinni fer verkfallið fram sem hluti af alþjóðlegu verkfalli, en loftslagsverkföll munu eiga sér stað á sama tíma í tæplega 100 löndum og yfir 1.200 borgum og bæjum. Verkfallið er hluti af alþjóðlegri öldu ungmenna sem rísa upp að fordæmi hinnar sænsku Gretu Thunberg og mun 15. mars marka hennar þrítugustu viku í loftslagsverkfalli. Fleiri en 12.000 vísindamenn og fræðimenn hafa skrifað undir stuðningsyfirlýsingu við verkföllin,“ segir í tilkynningu.

Verkfallið hér á landi mun fara fram í Reykjavík og á Akureyri. Í Reykjavík verður safnast saman fyrir framan Hallgrímskirkju klukkan 12 og gengið niður á Austurvöll þar sem hið eiginlega verkfall fer fram með ávörpum og samstöðu. Verkfallið á Akureyri fer fram á Ráðhústorgi klukkan 12 til 13.

Í síðasta verkfalli söfnuðust saman um 400 manns á Austurvelli, flest börn á grunnskólaaldri, og kröfðust aukinna aðgerða vegna loftslagsmála.

Ljósmyndari Elías Arnar

„Stjórnvöld þurfa að grípa til aukinna og metnaðarfyllri aðgerða strax og auka fjárframlög í málaflokkinn. Samkvæmt milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) þurfa ríki heims að verja árlega 2,5% af vergri landsframleiðslu í loftslagsmál fram til 2035 ef halda á hnattrænni hlýnun innan við 1,5°C.

Ríkisstjórn Íslands hefur sett sér aðgerðaáætlun í loftslagsmálum en fjármagnið sem er eyrnamerkt henni hljóðar einungis upp á 0,05% af landsframleiðslu og því má betur ef duga skal. Atvinnulífið þarf einnig að axla ábyrgð og ráðast samstundis í aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Krafa verkfallsins er að enn verði aukið í, enda liggur það í augum uppi að ef ekki verður gert betur mun það falla á komandi kynslóðir að taka afleiðingunum.

Forsvarsmenn loftslagsverkfallsins hafa þegar fundað með umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni, en bíða enn fundarboðunar frá forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, og fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni,“ segir í fréttatilkynningu frá aðstandendum loftslagsátaksins á Íslandi.

Ljósmyndari Elías Arnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert