Útilokar ekki endurkomu ráðherra

Sigurður Ingi Jóhannsson ræðir við fjölmiðla í Alþingishúsinu í dag.
Sigurður Ingi Jóhannsson ræðir við fjölmiðla í Alþingishúsinu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Við virðum og styðjum þessa ákvörðun,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, um ákvörðun Sigríðar Á. Andersen um að stíga til hliðar sem dómsmálaráðherra.

Hann segir að enginn þrýstingur hafi verið á ráðherra úr ríkisstjórninni að segja af sér eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá því í gær. Þar var úrskurðað að skipun dómara í Landsrétt hafi brotið gegn mannréttindasáttmála um réttláta málsmeðferð.

„Þessi dómur er alveg fordæmalaus og þess vegna kallar hann á það að honum verði áfrýjað. Það hefur komið fram að þetta gæti haft áhrif á aðrar Evrópuþjóðir og því tel ég eðlilegast að áfrýja og vinna í okkar málum á meðan. Við tökum úrskurðinn alvarlega og vinnum úr því að eyða hér allri réttaróvissu,“ sagði Sigurður Ingi.

Útilokar ekki endurkomu Sigríðar

„Það er mikilvægt á öllum tímum að ríkisstjórnir komi fram með skynsömum hætti. Ég tel að við séum að gera það hér og ráðherra tekur þessa ákvörðun af sínu frumkvæði. Hér voru uppi óvissutímar og ráðherra axlar ábyrgð,“ sagði Sigurður Ingi.

Hann segir ekkert liggja fyrir hvernig næstu skref verða í ríkisstjórninni.

„Við höfum talað saman um hvernig hægt er að takast á við þessa óvissu. Það er mikilvægt að ríkisstjórnin sé samstillt í því og þess vegna er hugur okkar Framsóknarmanna skýr um það að við styðjum þessa ákvörðun ráðherra og höldum að hún verði til góðs,“ sagði Sigurður Ingi.

Telur hann Sigríði eiga afturkvæmt í ríkisstjórn?

„Ég vil alls ekki útiloka það að það gerist, ef áfrýjunardómstóllinn kemst að annarri niðurstöðu en meirihluti Mannréttindadómstólsins. Ég tel að þessi ákvörðun hennar sé málinu í heild til góða. Hún stígur til hliðar svo enginn vafi sé á varðandi dómsvaldið,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson.

mbl.is