VG losað sig við erfiðan ráðherra

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, telur ljóst að VG hafi …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, telur ljóst að VG hafi neytt dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins til þess að víkja til hliðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég hef skilning á þessari ákvörðun. Hins vegar finnst mér blasa við pólitískt séð að einn ríkisstjórnarflokkur neyðir þarna annan til þess að setja sinn ráðherra út. Með því er ég að vísa til þess að með ákvörðun dómsmálaráðherra sé verið að bregðast við kröfu VG sem hafi nú tekist að losa sig við þann ráðherra, til lengri eða skemmri tíma, sem hvað helst hefur veitt einhverja mótspyrnu gegn vinstri-grænum innan ríkisstjórnarinnar.“

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is um þá ákvörðun Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra að stíga til hliðar á meðan brugðist er við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem fjallað var um skipun dómara við Landsrétt. Hann segir að þótt málin eigi eftir að skýrast betur hafi margt þegar komið í ljós í þessum efnum.

Lét ekki forsætisráðherrann vita

„Sigríður lýsti því yfir í gærkvöld að hún ætlaði ekki að víkja en eftir einhver samtöl, að minnsta kosti við [Katrínu Jakobsdóttur] forsætisráðherra, þá breytir hún fyrri afstöðu sinni og virðist ekki sérstaklega ánægð með að hafa þurft að gera það enda kom nú fram á blaðamannafundi hennar að hún hefði ekki verið búin að láta forsætisráðherrann vita. Sem segir nú sína sögu. Að ráðherra ákveði að stíga til hliðar og tilkynni það á blaðamannafundi án þess að vera búinn að tilkynna forsætisráðherranum það er að mínu mati augljóst merki um að hún hafi ekki verið sátt við að þurfa að gera þetta,“ segir hann.

Sigmundur bendir enn fremur á að Sigríður hafi talað um að stíga til hliðar í nokkra mánuði en þegar Katrín hafi verið spurð hafi hún sagt að það væri alls óljóst hvort hún kæmi aftur í ríkisstjórnina. 

Sigríður Á. Andersen á blaðamannafundi í dag, þar sem hún …
Sigríður Á. Andersen á blaðamannafundi í dag, þar sem hún tilkynnti að hún ætlaði að víkja tímabundið úr embætti dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er annaðhvort eða ekki. Annaðhvort er ráðherrann að fara í nokkrar vikur og koma aftur eða ekki. Þarna er augljós munur á afstöðu. Síðan bætist við að Katrín er spurð hvort það hefði verið banabiti ríkisstjórnarinnar ef dómsmálaráðherrann hefði ekki vikið sem hún svarar ekki. Sem ég túlka sem já. Þannig að niðurstaðan er sú að vinstri-græn eru búin að beygja Sjálfstæðisflokkinn í þessu máli. Það hlýtur að vera nokkuð áhyggjuefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og kannski ríkisstjórnina í heild, þegar hann er farinn að láta samstarfsflokk, undir hótun um stjórnarslit, segja sér hvaða ráðherrar eigi að sitja fyrir hans hönd og hverjir ekki.“

Rétt að áfrýja dómnum til æðra dómstigs

Spurður um framhaldið segist Sigmundur telja fulla ástæðu til þess að láta reyna á málið fyrir æðra dómstigi. „Ég held að það sé mjög mikilvægt að áfrýja málinu til þess að fá endanlega niðurstöðu í það.“ Vísar Sigmundur þar til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins. Þótt talað hafi verið um að tiltölulega fá mál væru tekin fyrir af nefndinni segist hann telja að um slíkt grundvallarmál sé að ræða í þessu tilfelli að líkur séu á því að það verði tekið fyrir.

Sigmundur segist ekki síður telja athyglisvert að í minnihlutaáliti dómstólsins komi fram að pólitískt andrúmsloft á Íslandi hafi mögulega haft áhrif á niðurstöðuna. „Það er ekki síst mikið áhyggjuefni.“

mbl.is