Á ekki von á hléi í Landsrétti

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins, líst vel á að Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir taki við af Sigríði Andersen sem dómsmálaráðherra. Hann segir að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu hafi komið á óvart.

„Þórdís er auðvitað hagvön í ráðuneytinu. Það er bara gaman að fá hana og gangi henni vel,“ sagði Sigurður Ingi við mbl.is eftir ríkisráðsfund á Bessastöðum þar sem formlega var gengið frá því að Þórdís tekur við embætti dómsmálaráðherra samhliða störf­um sín­um sem ráðherra ferðamála, iðnaðar og ný­sköp­un­ar. Um tímabundna ráðstöfun er að ræða.

Spurður hvort niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu á þriðjudag hafi komið á óvart sagði Sigurður svo vera:

„Menn hafa undirbúið eitt og annað en ég held að það megi fullyrða að þessi niðurstaða hafi komið öllum á óvart. Það bjóst enginn við þessari niðurstöðu. Við vorum búin að ráðfæra okkur við mjög marga lögspekinga og ég held að enginn hafi séð þetta fyrir.

Hann sagði að næstu skref varðandi Landsrétt væri að fara yfir málið af yfirvegun og vandvirkni. „Eins og komið hefur fram eru allar líkur á því að skynsamlegast sé að áfrýja málinu í ljósi þess að það er fordæmalaust og hefur fordæmi út fyrir landsteinana.

Ríkisstjórn Íslands á ríkisráðsfundi á Bessastöðum nú síðdegis.
Ríkisstjórn Íslands á ríkisráðsfundi á Bessastöðum nú síðdegis. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður á ekki von á því að hlé verði gert á málum í Landsrétti á meðan þess er beðið hvort málinu verði vísað til yfirdóms og hvort leyfi fáist fyrir því.

„Það gæti vel verið að niðurstaðan yrði sú að Landsréttur tæki til starfa að óbreyttu í næstu viku hvort sem það yrðu ellefu dómarar við hann eða fimmtán. Það er eitt af því sem við þurfum að greiða úr á næstu dögum,“ sagði Sigurður sem óttast ekki að Þórdís verði með of marga bolta á lofti með nýju embætti.

„Ég hef prófað að vera í tveimur ráðuneytum. Það er erfitt en ég veit að Þórdís getur það ekki síður en ég,“ sagði Sigurður sem útilokar ekki að Sigríður Andersen snúi aftur sem ráðherra.

„Ég útiloka það alls ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert