„Geri ráð fyrir því að tillögu Bjarna verði vel tekið“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðar- og …
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, mæta til þingflokksfundar í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingflokksfundur Sjálfstæðisflokksins er nú nýhafinn í Alþingishúsinu þar sem rædd verður tillaga Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um skipan dómsmálaráðherra í stað Sigríðar Á. Andersen sem steig til hliðar í gær.

Þegar Bjarni kom í Alþingishúsið nú rétt fyrir hálfþrjú sagðist hann ætla að ræða við fjölmiðla að þingflokksfundi loknum, en gaf ekki upp hvort hann muni tilkynna nýjan ráðherra eftir fundinn. Ríkisráð kemur saman á Bessastöðum klukkan 16 og þá verður ljóst í síðasta lagi hver tekur við dómsmálaráðuneytinu.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, gaf færi á stuttu viðtali fyrir þingflokksfundinn. Hann sagðist ekki eiga von á löngum fundi fyrst ríkisráð komi saman klukkan 16.

„Bjarni mun greina frá sinni tillögu þegar hann hefur rætt það við okkur í þingflokknum. Ég geri ráð fyrir því að tillögu Bjarna verði vel tekið, sama hver hún er,“ sagði Birgir.

En hvernig greinir hann stemninguna í herbúðum flokksins eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í fyrradag og afsögn Sigríðar Á. Andersen?

„Ég myndi orða það þannig að menn eru auðvitað hugsi yfir niðurstöðu Mannréttindadómstólsins og taka það verkefni sem við blasir mjög alvarlega, að leysa úr stöðunni. Við verðum að gefa okkur nokkra daga til þess að komast að niðurstöðu. Nú tökum við einn dag í einu og ræðum saman í okkar hópi,“ sagði Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, fyrir fund þingflokksins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert