Dómararnir enn að meta stöðuna

mbl.is/Hjörtur

Frekari ákvarðanir hafa ekki verið teknar af hálfu Landsréttar um framhaldið í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu á þriðjudaginn, þar sem fjallað var meðal annars um skipun dómara við réttinn, en að nota þessa viku til þess að greina stöðuna.

Þetta segir Björn L. Bergsson, skrifstofustjóri Landsréttar, í samtali við mbl.is spurður hvort teknar hefðu verið frekari ákvarðanir í þessum efnum af hálfu réttarins umfram það sem greint var frá í gær, en þá var tilkynnt að ekki yrðu kveðnir upp dómar í þessari viku og að dómararnir teldu dóm Mannréttindadómstóls Evrópu eiga við þá alla en ekki aðeins þá fjóra dómara sem skipaðir voru en voru ekki á lista hæfisnefndar yfir þá sem hún taldi hæfasta.

„Dómarar Landsréttar tóku ákvörðun um það að taka þessa daga sem eru eftir fram að helgi til þess að greina stöðuna og taka ákvarðanir um framhaldið og sú vinna er einfaldlega í gangi. Þannig að engin önnur ákvörðun hefur verið tekin en þessi,“ segir Björn.

mbl.is