„Menn voru ekkert að halda framboðsræður“

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

„Auðvitað er öllum ljóst að svona verður þetta ekki til langframa,“ segir Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, um þá ákvörðun að skipa Þór­dísi Kol­brúnu R. Gylfa­dótt­ur, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, einnig dóms­málaráðherra.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, boðaði til þingflokksfundar með skömmum fyrirvara í dag þar sem hann greindi þingflokknum frá ákvörðun sinni. Þórdís bætir við sig embætti dómsmálaráðherra í stað Sigríðar Á. Andersen sem steig til hliðar í gær.

Málefni dómsmálaráðherra og Landsréttar voru til umræðu á þingflokksfundinum, en Sigríður tók ákvörðun um að stíga til hliðar eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem skipun dómara í Landsrétt var sögð brot á mannréttindasáttmálanum.

„Menn ræddu um stöðu málsins, bæði hvað varðar ráðherraembættið og varðandi hina efnislegu úrlausn málsins. Það var full samstaða um það að góð og skynsamleg lausn, til bráðabirgða, væri sú að Þórdís Kolbrún tæki við þessu embætti samhliða öðrum ráðherrastörfum,“ sagði Birgir.

Hann sagðist ekki geta svarað því hversu tímabundin þessi ákvörðun væri, en að hún skapi svigrúm til þess að taka endanlegri ákvörðun um næstu skref. En óskaði einhver í þingflokknum eftir því að taka við stöðu dómsmálaráðherra og koma þá sem nýr inn í ríkisstjórn?

„Það var full eining um þessa niðurstöðu. Menn voru ekkert að halda framboðsræður,“ sagði Birgir.

Engar sjálfkrafa breytingar eftir dóm MDE

Eftir að úrskurður Mannréttindadómstólsins, MDE, féll í fyrradag ákvað Landsréttur að fresta allri sinni dagskrá út vikuna, hið minnsta. Stjórnarþingmenn sem hafa tjáð sig um málið hafa allir sagt að niðurstaða MDE hafi komið á óvart. Var þá engin áætlun til um næstu skref ef úrskurður MDE yrði eins og hann svo fór?

„Menn hafa á ýmsum vígstöðum velt fyrir sér hver niðurstaða dómsins yrði. Ég held það hafi komið mörgum hér á óvart hvernig nákvæmlega hann féll að þessu leyti. Þingið, ríkisstjórn og sérfræðingar þurfa að fara yfir þetta allt saman núna og ég tel það ekkert óeðlilegt að taka nokkra daga í það,“ sagði Birgir.

Spurður beint út hvort engin varaáætlun hefði verið tilbúin ef svona færi svaraði Birgir:

„Það verður að hafa í huga að niðurstaða Mannréttindadómstólsins í þessu máli leiðir ekki sjálfkrafa til neinna breytinga hér. Auðvitað er ákveðin óvissa nú sem vonandi verður ekki langvinn.“

Birgir Ármannsson og Sigríður Andersen á landsfundi.
Birgir Ármannsson og Sigríður Andersen á landsfundi. mbl.is/Eggert

Þarf að huga að sjálfstæði Landsréttar

Birgir sagði of snemmt að ræða næstu skref, til dæmis hvort þurfi að auglýsa stöður dómara við Landsrétt á ný eða hvort Hæstiréttur taki við sem áfrýjunardómstóll á ný á meðan óvissan um Landsrétt sé svona mikill.

„Auðvitað er það þannig að dómurinn [frá MDE, innskot blm.] hefur ekki bein réttaráhrif með þeim hætti að dómarar Landsréttar þurfi að leggja niður störf eða að þeirra embættisverk verði ógild að íslenskum lögum. Þar gildir niðurstaða Hæstaréttar frá síðasta ári, sem hefur kveðið upp að annmarkar á skipun dómara á sínum tíma hafi ekki verið svo veigamikil að það valdi því að þeir geti ekki gegnt sínum embættum,“ sagði Birgir.

Það væri erfitt að segja nákvæmlega hver næstu skref yrðu og hvað hægt væri að gera til þess að koma Landsrétti aftur á réttan kjöl.

„Í öllu þessu samhengi verðum við að gæta þess að dómstólarnir eru sjálfstæðir, þannig það setur okkur ákveðin mörk hvaða fyrirmæli við ætlum að gefa Landsrétti í framhaldi af þessum dómi. Þetta þarf að fara yfir núna. Dómstólarnir þurfa að bregðast við því sem að þeim snýr og við á vettvangi stjórnmála, hvort sem er í þinginu eða ríkisstjórn, þurfum líka að skoða stöðuna,“ sagði Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert