Kennarafélögin undirbúa kröfugerð

Frá þingi Kennarasambands Íslands.
Frá þingi Kennarasambands Íslands. mbl.is/​Hari

Kjarasamningar félaga leik- og grunnskólakennara munu losna 30. júní og er undirbúningur hafinn að því að móta kröfugerðir þeirra. Samningar Félags framhaldsskólakennara losna í lok þessa mánaðar og eru viðræður félagsins við ríkið hafnar.

Félögin eru þau langstærstu innan Kennarasambands Íslands, með hátt í 9.000 félagsmenn, og formenn þeirra eru sammála um að talsverðra kjarabóta sé þörf.

Félag leikskólakennara hefur staðið fyrir kjarafundum víða um land undanfarnar vikur. Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, segir að það sem helst hafi komið fram á fundunum sé að leikskólakennarar vilji að laun þeirra verði samkeppnisfær við aðra háskólamenntaða sérfræðinga á markaði. „Það kemur svo sem ekkert á óvart,“ segir Haraldur. „Tölur Hagstofu sýna að það er 63% munur á meðaldagvinnulaunum sérfræðinga sem starfa hjá sveitarfélögunum, þ.m.t. leikskólakennara og sérfræðinga á almenna vinnumarkaðnum. Munurinn á milli sérfræðinga hjá sveitarfélögunum og hjá ríkinu er svo 20%. Það er býsna mikill munur.“

Annað sem Haraldur segir að hafi verið rætt á fundunum sé að brýnt sé að leiðrétta starfsaðstæður á milli skólastiga. Hann segir of snemmt að ræða um áherslur kröfugerðar félagsins og vill ekki nefna neinar launatölur í þessu sambandi. „Við viljum fyrst heyra hvað fólki finnst skipta máli,“ segir hann í umfjöllun um kjaramál kennara í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert