Ræddu ekki um nýjan ráðherra

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ræðir við fjölmiðla í dag eftir fundinn.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ræðir við fjölmiðla í dag eftir fundinn. mbl.is/Kristinn

Fundi ríkisstjórnarinnar er lokið en að sögn ráðherra var ekkert rætt á honum um það hver tæki við sem dómsmálaráðherra af Sigríði Andersen í kjölfar ákvörðunar hennar í gær um að stíga til hliðar í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem meðal annars var fjallað um það hvernig staðið var að skipun dómara við Landsrétt.

Talið var líklegt að rætt yrði um mögulegan arftaka Sigríðar á fundinum og tilkynnt um það eftir fundinn en það var hins vegar ekki gert sem fyrr segir. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði við fjölmiðla í gær að tvær leiðir væru líklegastar. Annað hvort að einhver núverandi ráðherra taki að sér dómsmálin til viðbótar við núverandi verkefni eða að einhver úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem ekki er ráðherra taki við embættinu.

Spurður eftir ríkisstjórnarfundinn hver yrði næsti dómsmálaráðherra ssagði Bjarni að það lægi ekki fyrir og hefði ekki verið rætt á fundinum. „Við eigum eftir að ganga frá því,“ sagði Bjarni og bætti við að málið yrði rætt á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. Málið myndi skýrast eftir það. „Þetta er bara ekki frágengið.“

Vangaveltur hafa verið um það hver gæti orðið næsti dómsmálaráðherra og hefur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verið nefnd af ýmsum verði nýr ráðherra málaflokksins skipaður. Þórdís er lögfræðingur að mennt og þekkir málaflokkinn en hún var áður aðstoðarmaður innanríkisráðherra.

mbl.is