Sýni úr Fannborg í rannsókn

Úttekt á húsnæði Fannborgar er lokið.
Úttekt á húsnæði Fannborgar er lokið.

Fulltrúar skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Fossvogsskóla vinna nú hörðum höndum að því að leita að heppilegu húsnæði fyrir starfsemi Fossvogsskóla, þar sem upp komst um myglu í húsnæði í síðustu viku.

Laugardalshöll og Fagrilundur til skoðunar

Meðal þess sem í skoðun er eru rými í Laugardal, þar á meðal Nýja-Laugardalshöllin, og Fagrilundur í Kópavogi.

Til stóð að þeim nemendum sem ekki geta stundað nám í húsnæði Fossvogsskóla vegna myglunnar yrði kennt í Fannborg í Kópavogi en við skoðun þar komu í ljós rakaskemmdir.

Að sögn Helga Grímssonar, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, er úttekt á húsnæði Fannborgar lokið. Tekið var sýni vegna rakaskemmdanna og eru rannsóknarniðurstöður væntanlegar á mánudag.

„Við erum að skoða þetta og lítið hægt að fullyrða enn sem komið er en við reynum að halda öllum möguleikum opnum þangað til við erum komin með einhverja heildarmynd,“ segir Helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert