Þóttist hafa farið húsavillt

mbl.is/Þórður

Lögreglunni barst ábending á þriðja tímanum í nótt um mann sem hafði hringt dyrabjöllu á húsi í Garðabæ og orðið mjög vandræðalegur þegar húsráðandi kom til dyra. Þóttist maðurinn hafa farið húsavillt og hann væri í söluerindum.

Maðurinn fannst skömmu síðar þar sem hann sat í bifreið og var hann handtekinn og vistaður í fangageymslum lögreglunnar. Maðurinn er grunaður um nytjastuld bifreiðar, brot á vopnalögum og vörslu fíkniefna.

Kvartað var við lögreglu um ónæði frá íbúð í fjölbýlishúsi í Kópavoginum um klukkan 20:30 í gærkvöldi. Þrennt var í íbúðinni og eru þau grunuð um vörslu fíkniefna. Skýrsla var tekin af einum á vettvangi en par í mjög annarlegu ástandi var handtekið og vistað í fangageymslu lögreglu þar til hægt verður að ræða við það.

Fjórir ökumenn voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu frá því um miðjan dag í gær þangað til í nótt. 

mbl.is