Vel gert að ná þessu magni

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

„Það var vel af sér vikið að ná í þetta magn á þessum tíma því það er erfitt eins og staðan er í heiminum í dag,” segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir um 10 þúsund skammta af bóluefni gegn mislingum sem eru komnir til landsins og í dreifingu

Reiknað er með að heilsugæslur landsins auglýsi fljótlega tíma á bólusetningum en það tekur tíma að dreifa þessu magni. Bóluefninu verður „skipt af sanngirni“ segir Þórólfur. Við úthlutun efnisins milli sóttvarnarsvæða var skoðað í gagnagrunni embættisins hversu margir einstaklingar eru óbólusettir.

Á höfuðborgarsvæðinu og á Austurlandi þar sem mislingar hafa greinst verður áfram lögð áhersla á að bólusetja óbólusetta einstaklinga fædda eftir árið 1970 og börn frá 6 mánaða aldri. Þau börn sem fá bólusetningu frá 6 til 12 mánaða þurfa að fá aftur sömu bólusetningu 18 mánaða og aftur 12 ára. 

Á öðrum stöðum á landinu þar sem mislingar hafa ekki greinst er mælt með bólusetningu barna frá 12 mánaða aldri. Þau börn þurfa ekki að fá aðra bólusetningu fyrr en 12 ára. Þau þurfa sem sagt ekki að fá aðra bólusetningu gegn mislingum 18 mánaða eins og alla jafna er gert.   

Engin ný mislingasmit hafa greinst. Alls hafa 5 greinst með mislinga og mögulega bættist sjötta mislingasmitið við fyrr í vikunni. 

Þórólfur telur hugsanlegt að sjötta mislingasmitið sem greindist í vikunni hjá 19 mánaða barni sé af völdum bólusetningar gegn mislingum sem það fékk 18 mánaða. Barnið fékk mislingalík útbrot en var ekki veikt að öðru leyti. 

„Til að vera viss var það sett í einangrun,“ segir Þórólfur en tekur fram að litlar líkur séu á smiti til annarra í slíkum tilvikum. 

Ekki var hægt að sýna með óyggjandi hætti hvort þetta væri af völdum bóluefnisins eða mislingasmits og var sýni sent til útlanda til frekari greiningar. Niðurstaða greiningar liggur fyrir eftir nokkrar vikur. 

Hér á vef embættis landlæknis er hægt að leita frekari upplýsinga um mislingasmit. 

 

Tíu þúsund skammtar af bóluefni eru komnir til landsins.
Tíu þúsund skammtar af bóluefni eru komnir til landsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert