Andlát: Ingvar Hallsteinsson

Ingvar Hallsteinsson
Ingvar Hallsteinsson

Ingvar Hallsteinsson prentverkfræðingur lést á heimili sínu í Riverbank í Kaliforníu 3. mars síðastliðinn, 83 ára að aldri. Hann lætur eftir sig eiginkonu og fjögur uppkomin börn.

Foreldrar hans voru Hallsteinn Hinriksson íþróttakennari og Ingibjörg Árnadóttir kennari. Systkini Ingvars eru Örn, f. 1941, Sylvía, f. 1945 og Geir, f. 1946.

Ingvar fæddist í Hafnarfirði 6. apríl 1935 og var elstur systkinanna. Hann gekk í Barnaskóla Hafnarfjarðar og síðar í Flensborgarskólann. Ingvar hóf svo prentnám í Prentsmiðju Hafnarfjarðar árið 1951 og lauk því námi með sveinsprófi í setningu fjórum árum síðar.

Hann stundaði framhaldsnám í Danmörku árið 1956 þar sem hann kynnti sér m.a. auglýsingar og teikningu, og vann hjá fyrirtækjum þar í landi störf sem tengdust því. Hann starfaði sem setjari í Prentsmiðju Hafnarfjarðar á árunum 1957-59.

Ingvar hélt til náms í prentverkfræði og verksmiðjustjórn haustið 1959, fyrstur Íslendinga, við California Polytechnical State University í San Luis Obispo á Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna. Hann útskrifaðist með BS-gráðu frá skólanum árið 1963. Samhliða náminu og næstu tvö ár á eftir vann hann við prenttengd störf fyrir dagblöð vestanhafs.

Ingvar var auglýsingastjóri Sambands íslenskra samvinnufélaga (SÍS) árið 1966, prentsmiðjustjóri Morgunblaðsins árin 1966-1972 og starfaði við umbrot og uppsetningu hjá dagblaðinu San Jose Mercury News 1972-78.

Hann vann sem framleiðslustjóri hjá Frjálsu framtaki á árunum 1978-83 en flutti svo til Kaliforníu 1984 þar sem hann bjó og starfaði til æviloka, m.a. fyrir San Jose Mercury News til ársins 1997.

Ingvar þótti fjölhæfur og góður frjálsíþróttamaður á árum áður, og stjórn Fimleikafélags Hafnarfjarðar (FH) sæmdi hann fjölda heiðurs-viðurkenninga fyrir keppni og mikilvægt starf í þágu félagsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert