„Erum ekki bara kvótastelpur“

Fögnuður liðs Kvennó var ósvikinn.
Fögnuður liðs Kvennó var ósvikinn. Skjáskot RÚV

„Við erum að brjóta glerþakið sem Gettu betur hefur verið með mjög lengi,“ segir Fjóla Ósk Guðmannsdóttir, fyrirliði Kvennó í Gettu betur, en skólinn tryggði sér í kvöld sigur í Gettu betur með sigri á MR í æsispennandi úrslitum í kvöld, 30:29. Lið Kvenna­skól­ans skipa þau Fjóla Ósk Guðmanns­dótt­ir, Hlyn­ur Ólason og Berg­lind Bjarna­dótt­ir.

Fjóla stóð einnig uppi sem sigurvegari í Gettu betur með Kvennaskólanum fyrir tveimur árum og er hún því fyrsta stelpan í sögu Gettu betur sem vinnur keppnina tvisvar. Auk þess er lið Kvennó í ár fyrsta sigurliðið þar sem meirihluti liðsmanna er stelpur.

„Við erum að sýna að við erum ekki bara kvótastelpur,“ segir Fjóla. Kynjakvótar voru settir á í Gettu betur fyrir nokkrum árum og þá var skylda að hafa í það minnsta eina stelpu í hverju liði. 

Hlynur Ólason, Berglind Bjarnadóttir og Fjóla Ósk Guðmannsdóttir, með hljóðnemann, …
Hlynur Ólason, Berglind Bjarnadóttir og Fjóla Ósk Guðmannsdóttir, með hljóðnemann, fagna í kvöld. mbl.is/Eggert

Ekki rígur á milli liðanna

„Við vorum búin að plana að sigra. Auðvitað getur allt gerst en við ákváðum að reyna okkar besta og það skilaði sér,“ segir Fjóla Ósk. Aðspurð segir Fjóla að liðið hafi haft undirbúning keppninnar hefðbundinn; farið í sund og haft það rólegt.

Mjög stutt er á milli skólanna í miðbæ Reykjavíkur, Kvennó og MR, og Fjóla bendir á að Kvennó hafi líka unnið MR síðast þegar skólarnir mættust í Gettu betur. Hún segist ekki nudda MR-ingum upp úr því þegar þeir tapa og segir ekki mikinn ríg milli þeirra sem eru í keppnisliðunum:

„Það er ekki rígur á milli liðanna, kannski nemenda í skólunum.“

Sigursvarið frönskukennaranum að þakka

Fjóla tryggði Kvennó sigurinn í kvöld þegar spurt var um dýrið lunda í vísbendingaspurningu. Hún svaraði rétt, Kvennó fékk tvö stig og það voru tvö síðustu stig kvöldsins. Athygli vakti að við fyrstu vísbendingu, þegar þrjú stig voru í boði, svaraði Fjóla því að dýrið væri froskur og ýtti svo á bjölluna áður en spyrill hóf að lesa aðra vísbendinguna: „Við ætlum að segja að þetta sé lundi, af því að það er mánudagur á frönsku,“ sagði Fjóla í keppninni og Kvennó fékk tvö stig að launum.

„Ég fattaði á seinustu stundu að ég svaraði vitlaust. Spyrillinn talaði um eitthvert embætti og að Frakkar vildu borða ákveðinn mat á mánudögum. Ég vil bara þakka frönskukennaranum mínum innilega fyrir að kenna mér mánudag á frönsku,“ segir Fjóla.

Hún segir að sigrinum verði vel fagnað í kvöld, eins og gefur að skilja. Aðspurð hvað taki síðan við segist hún útskrifast í vor en Hlynur og Berglind halda áfram í Kvennaskólanum næsta vetur.

Spurð hvort hún þurfi ekki að fylla upp í tómarúm nú þegar Gettu betur ferlinum er lokið stendur ekki á svari:  „Líf eftir Gettu betur, er það til?“ spyr Fjóla og kveður blaðamann áður en hún heldur í fögnuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert