Fjölmiðlanefnd „á óheillabraut“

Blaðamannafélag Íslands telur fjölmiðlanefnd komna langt út fyrir valdsvið sitt.
Blaðamannafélag Íslands telur fjölmiðlanefnd komna langt út fyrir valdsvið sitt.

Stjórn Blaðamannafélags Íslands hefur samþykkt að draga fulltrúa sinn úr starfi fjölmiðlanefndar. Samkvæmt tilkynningu frá félaginu er ástæðan eðlisbreyting sem hefur orðið á nefndinni að undanförnu, þar sem hún hefur sérstaklega úrskurðað og gefið út álit á grundvelli 26. grein fjölmiðlalaga um lýðræðislegar skyldur fjölmiðla.

Blaðamannafélag Íslands telur fjölmiðlanefnd komna langt út fyrir valdsvið sitt með því að yfirfara og krefja blaðamenn upplýsinga og gagna um fréttamat þeirra og dagleg vinnubrögð „á grundvelli ábendinga frá Pétri og Páli í stað þess að slíku sé einfaldlega vísað til siðanefndar BÍ eða dómstóla.“

Í tilkynningu Blaðamannafélagsins segir að tvö síðustu álit nefndarinnar sem birt hafa verið á heimasíðu hennar snúist gagngert um vinnubrögð og fréttamat blaðamanna í einstökum málum og séu komin vegna kvartana sem nefndin telji sig þurfa að rannsaka, úrskurða um og gefa álit sitt á.

„Af ofangreindu má vera ljóst að fjölmiðlanefnd er komin langt út fyrir valdsvið sitt varðandi þau erindi sem henni hafa borist og hún hefur kosið að láta sig varða. Það er einboðið að fulltrúar Blaðamannafélags Íslands geta ekki tekið þátt í starfi fjölmiðlanefndar meðan nefndin er á þessari óheillabraut.  Félagið mun jafnframt að gefnu tilefni beina því til félagsmanna sinna að þeir íhugi hvort erindi frá fjölmiðlanefnd varðandi 26. grein laga um lýðræðislegar grundvallareglur þarfnist svars í ljósi þeirra lögskýringagagna sem að framan greinir og finna má  meðal annars í greinargerð og nefndaráliti meirihluta og minnihluta menntamálanefndar þegar  frumvarp um fjölmiðla varð að lögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert