Fylltist trú á mannkyninu eftir þjófnað

Stefán Pálsson sagnfræðingur er að sögn kunnugra með hnausþykkt Útvegsbankaveski …
Stefán Pálsson sagnfræðingur er að sögn kunnugra með hnausþykkt Útvegsbankaveski af gamla skólanum og það ásældist heiðvirður þjófur í Kaupmannahöfn í gærkvöldi. mbl.is/Arnþór Birkisson

Stefán Pálsson sagnfræðingur segir að hann hafi mögulega lent í „heiðvirðasta glæpamanni sögunnar“ í Kaupmannahöfn í gærkvöldi. Þá var veskinu hans stolið á bar í borginni, það gjörsamlega ryksugað af öllu lausafé og síðar skilað aftur í afgreiðslu hótelsins sem hann dvelur á, en herbergislykill merktur hótelinu var í veskinu.

„Það var búið að taka alla peninga, bæði danskar krónur og íslenskar krónur, sem mér finnst nú vera til marks um það að gjaldmiðillinn okkar sé ekki eins glataður og allir halda, en einhver, mögulega þjófurinn, hefur séð það að þarna væri nú vegabréf og séð fram á vesenið sem þetta myndi þýða, þannig að viðkomandi hefur gengið – og þetta eru 5 mínútur frá þessum bar á hótelið – til þess að skila ryksuguðu veskinu, með öllum kortum og skílríkjum,“ segir Stefán í samtali við mbl.is.

Seðlaveski Stefáns er engin smásmíði.
Seðlaveski Stefáns er engin smásmíði. Ljósmynd/Stefán Pálsson

Getur sætt sig við umsýslugjald þjófsins

„Ég hef aldrei áður upplifað það að vera rændur en fyllst einhvern veginn trú á mannkyninu í leiðinni,“ segir Stefán, sem tapaði nokkrum fjármunum á þessum þjófnaði, en slapp þó við vesenið sem hefði fylgt því að vera án allra korta og skílríkja á erlendri grundu og segist geta sætt sig við það ríflega umsýslugjald sem þjófurinn tók sér fyrir að skila veskinu aftur á hótelið.

Sagnfræðingurinn og bjóráhugamaðurinn Stefán er í ferð með hópi íslenskra bjóráhugamanna í Kaupmannahöfn þessa helgina, að skoða alls kyns örbrugghús Dananna. Hann lætur vel af ferðinni, þrátt fyrir þetta atvik.

„Það er allt gott í Kaupmannahöfn, meira að segja þjófarnir eru betri en annars staðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert