Dómurinn útiloki verkföllin ekki sem slík

Viðar útilokar því ekki að Efling geri aðra tilraun til …
Viðar útilokar því ekki að Efling geri aðra tilraun til þess að boða til samskonar verkfalla. mbl.is/​Hari

„Þessi dómur útilokar alls ekki að það sé hægt að grípa til verkfallsaðgerða af þeirri tegund sem við höfðum lagt upp með: að leggja niður störf að hluta til,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri mbl.is, í samtali við mbl.is eftir að hafa glöggvað sig á dómi félagsdóms þess efnis að örverkföll sem Efling hafði boðað til væru ólögmæt.

„Félagsdómur fellir þessar verkfallsboðanir að hluta til á tækniatriði,“ segir Viðar. „Óskýrleiki í einum lið verkfallsboðunarinnar er túlkaður þannig að hann geri alla boðunina ógilda.“

Viðar útilokar því ekki að Efling geri aðra tilraun til þess að boða til samskonar verkfalla.

„Við erum mjög tilbúin til þess að halda áfram að skoða það með okkar ráðgjöfum og lögmönnum hvernig við getum nýtt verkfallsvopnið á sem skynsamlegastan hátt,“ segir Viðar. 

Hengi sig fast á framsetningaratriði

„Það var ekki síst uppleggið með þessum aðgerðum að hægt væri að boða til aðgerða sem hefðu ekki hámarksáhrif strax, heldur kæmu til áhrifa á mildari hátt og með stigmögnun, sem mér kemur á óvart að Samtök atvinnulífsins hafi lagst gegn.“

„Það sem við höfum lært af þessum dómi er að félagsdómur er tilbúinn að hengja sig ansi fast á ákveðin framsetningaratriði. Við lærum af því og höldum ótrauð áfram,“ segir Viðar og ítrekar að úrskurður félagsdóms hafi engin áhrif á hefðbundnar verkfallsaðgerðir félagsins sem hefjast með sólarhringsverkfalli næsta föstudag.

mbl.is