„Héldum að Ísland væri friðsælt“

Samuel (t.h) og Moses (t.v) eru frá Nígeríu og hingað …
Samuel (t.h) og Moses (t.v) eru frá Nígeríu og hingað komnir í leit að betra lífi. mbl.is/Eggert

„Það er mjög kalt að vera hér að mótmæla dag eftir dag, og líka að sofa hérna en okkur er sama. Við erum hérna til þess að fá að gefa eitthvað til baka til samfélagsins, við erum ekki glæpamenn, fíkniefnasalar, kynferðisafbrotamenn eða hryðjuverkamenn. Við komum bara hingað í leit að betra lífi,“ segir Moses, hælisleitandi frá Nígeríu sem var viðstaddur samstöðuskemmtun gegn rasisma sem hófst á hádegi á Austurvelli. 

Moses og félagar hans, Samuel og Nase, hafa verið á Austurvelli að berjast fyrir kröfum hælisleitenda síðan mótmæli hófust á þriðjudag. Þar hafa þeir einnig gist en Samuel segir að þeir muni dvelja á Austurvelli þar til gengið verði að kröfum þeirra. 

„Að búa í Ásbrú er eins og að vera í fangelsi, maður kemst ekki neitt og hefur ekkert að gera. Við fáum ekki að vinna, fáum ekki að fara í skóla, getum illmögulega lært íslensku og fáum enga læknisaðstoð. Það gerir mann næstum því bilaðan að þurfa að vera þarna.“

„Ísland er ekki eins og Svíþjóð“

Moses segist skilja að stjórnvöld séu smeyk við að taka að sér fleiri hælisleitendur en það sé engin ástæða til þess að óttast hælisleitendur. „Við vitum að stjórnvöld eru hrædd um að hælisleitendur taki yfir samfélagið eins og einhverjir segja að hafi gerst í Svíþjóð. En við erum ekki hérna til þess að taka yfir samfélagið og Ísland er ekki eins og Svíþjóð. Ísland er mjög langt í burtu og svo er líka skítkalt hérna. Flestir sem koma hingað ákveða að fara aftur út af kuldanum. Það er mjög erfitt að vera í honum ef þú ert ekki vanur því,“ segir Moses og bætir við: 

„Þú myndir ekki fórna gamla lífinu þínu fyrir líf í óreglu og glæpum heldur fyrir líf þar sem þú getur unnið fyrir þér og gengið um göturnar óhræddur. Stundum er sagt að hælisleitendur séu glæpamenn upp til hópa en það er einfaldlega ekki satt. Ef þú lítur á tölfræðina á Íslandi þá hefur verið lítið sem ekkert um glæpi af hálfu hælisleitenda. Ég veit ekki alveg hvernig við eigum að sanna það að við séum hér til að lifa í sátt og samlyndi við Íslendinga.“

Jói P. og Króli tóku lagið á samstöðuskemmtuninni í dag.
Jói P. og Króli tóku lagið á samstöðuskemmtuninni í dag. mbl.is/Eggert

Neitun um landvistarleyfi vegna mótmæla

Moses segir að margir séu hræddir við afleiðingar mótmælanna og staðhæfir að einn af vinum hans hafi fengið neitun um landvistarleyfi vegna mótmælanna.

„Það þora ekki allir að mótmæla. Sumir eru hræddir um að eitthvað slæmt muni gerast ef þeir sjást að mótmæla í fréttunum. Sumir eru líka ekki tilbúnir að berjast. Eins og er þá erum við líka hræddir, við höfum verið í fréttunum, á samfélagsmiðlum og í myndböndum og erum alveg hræddir um hvað muni verða um okkur, hvort við verðum sendir úr landi.“ 

Moses segir hræðsluna meiri eftir að lögreglan beitti piparúða á mótmælendur í vikunni. „Það kom okkur mikið á óvart, við héldum að Ísland væri friðsælt land og það var enginn með uppsteyt við lögregluna. Lögreglan var mjög ofbeldisfull. Ég er ekki að taka því persónulega en einn þeirra sagði í sífellu: „Andskotans hælisleitendur, hypjið ykkur“. Ég fékk piparúða í augun og Samuel líka. Það var mjög vont og ég er alltaf hræddur þegar ég sé lögregluna núna.“

„Íslendingar eru mjög gott fólk“

Samuel segir að Íslendingar hafi staðið með hælisleitendunum í gegnum öll mótmælin. „Svo langar mig að segja eitt. Íslendingar eru mjög gott fólk. Þeir láta okkur líða vel. Áður en við fórum að mótmæla héldum við að Íslendingar vildu ekkert með okkur hafa en nú sjáum við að þeir elska okkur.“ 

Sumir voru hrifnari af íslenska fánanum en aðrir.
Sumir voru hrifnari af íslenska fánanum en aðrir. mbl.is/Eggert

Áður en þeir komu til Íslands voru þeir á Ítalíu um tíma. „Við erum óhamingjusamir sem hælisleitendur. Þeir segja okkur að við höfum haft það fínt á Ítalíu en það er ekki satt. Einn okkar bjó á götunni og á götunni er margt slæmt fólk sem nýtir sér neyð hælisleitenda, til dæmis með því að neyða þá í að vera burðardýr í skiptum fyrir húsaskjól. Ég vil ekki vera burðardýr, ég vil ekki neyta fíkniefna.“ 

Árásin á Nýja-Sjálandi hrollvekjandi

Moses segir að árás sem var framin á Nýja-Sjálandi í gær hafi skotið mörgum hælisleitendum skelk í bringu, en árásin beindist meðal annars að hælisleitendum. „Ég er hræddur. Ég horfði á myndbandið í gær og það var alveg hræðilegt. Við þurfum á hjálp að halda. Við þurfum að fá tækifæri.“

Fjöldi fólks mætti á samstöðuskemmtunina. Þar var mikið sungið, meðal annars lagið „We shall overcome“ sem hefur löngum verið tengt við Mannréttindahreyfinguna í Bandaríkjunum. Regnbogafánar og íslenskir fánar prýddu Austurvöll. 

mbl.is

Bloggað um fréttina