Í varðhald vegna gruns um smygl á fólki

Maðurinn er talinn hafa stundað skipulagt smygl á fólki til …
Maðurinn er talinn hafa stundað skipulagt smygl á fólki til landsins. mbl.is/Eggert

Karlmaður hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 10. apríl vegna rökstudds gruns um að hann hafi í þremur aðskildum tilvikum aðstoðað útlendinga við að koma ólöglega til Íslands og annarra ríkja og um sé að ræða skipulagða starfsemi í þeim tilgangi að smygla fólki. Landsréttur staðfesti í gær úrskurð héraðsdóms.

Fyrsta málið er frá 27. febrúar í fyrra. Þá kom kona sem talin er vera kærasta mannsins í móttökustöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Kom hún þangað í fylgd með þremur mönnum, en einn þeirra var sá sem er nú í varðhaldi. Kom konan hingað til lands ásamt manninum og öðrum karlmanni.

Annað málið er frá 2. janúar í ár, en þá var maðurinn stöðvaður við komuna til landsins í flugstöðinni í Keflavík. Kom hann þá með tveimur konum, en þær sögðust hafa ferðast einar hingað til lands og sóttu um alþjóðlega vernd. Tjáðu þau tollvörðum að þær hafi rifið skilríki sín í fluginu. Hins vegar fundust vegabréf þeirra í tösku mannsins þegar hún var opnuð og viðurkenndi hann þá að hafa ferðast ásamt konunum til landsins.

Þriðja málið er frá 2. Febrúar, en þá komu fimm manns til landsins. Sögðust þau koma hingað sem ferðamenn, en við nánari eftirgrennslan hafi einn sagst óska eftir alþjóðlegri vernd fyrir sig og fjölskyldu sína. Sögðust þau hafa valið Ísland þar sem það væri öruggt land fyrir konur og börn og að miðarnir hafi verið keyptir í gegnum ferðaskrifstofu sem þau fundu á netinu. Þau hafi hins vegar greitt fyrir með reiðufé, en við nánari skoðun kom í ljós að hinn kærði hafi bókað miða fyrir fólkið hingað til lands.

Kærði neitaði sökum við yfirheyrslur, en ætluð kærasta hans hefur þó sagt að þau reki ferðaskrifstofu. Kannaðist kærði ekki við það.

Fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að rannsókn málsins sé í fullum gangi og það sé mat lögreglustjóra að maðurinn sé undir sterkum rökstuddum grun um að standa skipulega að smygli fólks hingað til lands. Þá veki sérstaka athygli ferðaleið fólksins, en ekki kemur fram frá hvaða landi það komi upphaflega, en það virðist í öllum tilvikum fara í gegnum Spán, Þýskaland og þaðan til Íslands.

Lögreglan segir manninn lítt tengdan landinu og hætta á að hann muni reyna að komast úr landi sé hann ekki í varðhaldi. Einnig er talin hætta á að hann haldi brotum sínum áfram. Féllst dómurinn á þessa skýringu og úrskurðaði hann í varðhald til 10. apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert