Kólnandi hagkerfi ástæða skerðingar

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Skerða á framlög ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um þrjá milljarða á næstu tveimur árum, eða um tíu prósent. Forsvarsmönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga var greint frá þessu á fundi í fjármálaráðuneytinu í vikunni og í gær samþykkti stjórn sambandsins harðorða bókun vegna skerðingarinnar.

Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi sjóðsins. Sjóðurinn er að hluta til notaður til þess að fjármagna hluta af þjónustu við fatlað fólk og til að styðja sveitarfélög sem eiga í fjárhagserfiðleikum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði í kvöldfréttum RÚV að skerðing á framlögum til sjóðsins sé til komin vegna kólnandi hagkerfis og vegna óvissu í efnahagslífinu. Þá sagði hann viðbrögð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga við ákvörðun stjórnvalda óeðlilega harða.

Grípa til róttækra aðgerða ef ásættanleg niðurstaða fæst ekki

Í bókun sambandsins er farið fram á að teknar verði upp viðræður við fjármála- og efnahagsráðherra og ráðherra sveitarstjórnarmála. „Leiði þær viðræður ekki til ásættanlegrar niðurstöðu fyrir sveitarfélögin, verður gripið til róttækra aðgerða af hálfu sambandsins.“

Í bókuninni segir einnig að um einhliða aðgerð sé að ræða, sem gangi þvert á samstarf ríkis og sveitarfélaga í opinberum fjármálum. Ráðherra og ríkisstjórn hafi brugðist trausti sveitarfélaga á mjög alvarlegan hátt og veikt fjárhagslegan grundvöll þeirra, ekki aðeins gagnvart þeim þjónustuverkefnum sem jöfnunarsjóði er ætlað að standa undir, heldur einnig getu þeirra til að standa undir launakostnaðarhækkunum að kjaraviðræðum loknum.

mbl.is

Bloggað um fréttina