Ungmenni réðust á ölvaðan mann

mbl.is/Eggert

Á sjöunda tímanum í gærkvöldi fékk lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tilkynningu um að ungmenni hefðu ráðist á ölvaðan mann fyrir utan verslunarmiðstöð í Bakkahverfi. Ungmennin fóru síðan á burt í strætó.

Maðurinn var í kjölfarið fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild, en þegar þangað var komið vildi hann ekki þiggja aðstoð. Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar frá því í nótt og gærkvöldi.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í allavega tólf tilfellum afskipti af ökumönnum vegna aksturs undir áhrifum. Samkvæmt dagbókinni voru ökumennirnir í nokkrum tilfellum án ökuréttinda. Í eitt skiptið reyndu tvær ungar konur að komast undan á akstri, en lögreglan náði að stöðva þær. Þá var einn stöðvaður fyrir að vera réttindalaus og annar fyrir að vera á ótryggðum  bíl.

Í eitt skiptið var svo ekið á vegrið, en ökumaður þar er jafnframt grunaður um ölvunarakstur. Var hann með áverka í andliti og var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild.

Lögreglan klippti samtals númeraplötur af allavega tólf bifreiðum sem voru ótryggðar í nótt.

Þá kom tilkynning í gærkvöldi um þrjá unga menn sem voru um 14 ára gamlir sem voru til vandræða í verslun og neituðu að yfirgefa hana. Hafði þeim verið vísað út, en komu síðar inn aftur. Lögreglan hringdi í foreldra drengjanna sem sóttu syni sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert