Eins og 5:2-tap en ánægja með mörkin

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, hefði stutt aðra vantrauststillögu á Sigríði Andersen hefði hún komið fram á þingi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að hann hefði ekki látið VG þvinga sig til að setja ráðherra síns flokks til hliðar.

Þetta kom fram í máli þeirra tveggja en þau voru gestir í þjóðamálaþætt­in­um Þing­völl­um á K100. Þar var farið yfir Landsréttarmálið, brotthvarf Sigríðar Andersen úr dómsmálaráðuneytinu og framhald þingstarfa.

Rósa sagði að það hefði átt að vera hægt að búa sig undir ýmsar sviðsmyndir varðandi niðurstöðu dómsins en niðurstaðan virðist hafa komið forystufólki ríkisstjórnarinnar að einhverju leyti á óvart.

„Annaðhvort ertu ráðherra eða ekki“

„Það er ábyrgt að búa sig undir hlutina,“ sagði Rósa. Hún fjallaði einnig um þá sem talað hafa um að dómurinn sé klofinn og að álit minnihluta hans sé sterkara. „Það er svolítið eins og að tapa fótboltaleik 5:2 en tala um að mörkin tvö hafi verið góð,“ sagði Rósa.

Hún telur að Sigríður Andersen hafi verið eftir fremsta megni að reyna að halda í embættið og halda öllum dyrum opnum varðandi endurkomu. „Staðan er sú að ráðherra hef­ur verið vikið úr embætti. Annaðhvort ertu ráðherra eða ekki. Síðan er hægt að taka ein­hverja stöðu seinna. Mér finnst aðeins of mik­il opn­un í þessu máli, að hún snúi aft­ur,“ sagði Rósa en henni hugnast ekki að Sigríður taki aftur við embætti dómsmálaráðherra síðar á kjörtímabilinu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir á Þingvöllum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir á Þingvöllum. Ljósmynd/K100

Hefði stutt vantrauststillögu aftur

Aðspurð sagðist Rósa ekki getað talað fyrir hönd allra í þingflokki VG varðandi mögulega vantrauststillögu gegn Sigríði Andersen ef hún hefði ekki stigið til hliðar. „Ég tala bara fyr­ir sjálfa mig. Ég studdi van­trausts­til­lögu fyr­ir ári og myndi alltaf gera það aft­ur. Ég held að það hefði verið erfitt fyr­ir VG að fara inn í aðra van­traust­stil­lögu á sama ráðherra.“

Sigmundur sagði málið horfa þannig við sér að VG hafi þvingað ráðherra Sjálfstæðisflokksins úr embætti. Sigríður hafi á mánudeginum sagst ætla að halda sínu striki og virðist sem hún hafi haft fullan stuðning síns þingflokks til þess.

„Síðan kemur forsætisráðherra heim og á samtöl við ráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins. Skyndilega í framhaldi af því, meðan á þingflokksfundi VG stendur, er boðað til blaðamannafundar í skyndi og Sigríður tilkynnir að hún ætli að stíga til hliðar í nokkrar vikur. Mér fannst eins og hún ætlaði að fara í ein­hverj­ar vik­ur á meðan væri verið að taka ákvörðun um áfrýj­un. Hún nefn­ir að for­sæt­is­ráðherr­ann hafi ekki vitað af þessu, sem seg­ir sína sögu sem bend­ir til þess að hún hafi ekki verið sátt við þetta,“ sagði Sigmundur.

VG þvingaði Sjálfstæðisflokkinn 

Katrín Jakobsdóttir hafi farið í viðtal og sagt að ekki væri víst hvort ráðherrann sneri aftur og Bjarni Benediktsson síðar sagt að ekki væru líkur á því að Sigríður sneri aftur á næstu vikum. Sigmundur telur það benda til þess að Katrín hafi sagt Bjarna að án þess myndi stjórnin falla.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Sjálfstæðisflokkurinn var þvingaður til að skipta út einum af sínum ráðherrum. Það hefur ekki gerst áður að flokkur þvingi annan flokk til að setja ráðherra af,“ sagði Sigmundur sem bætti því við að hefðbundnara hefði verið að láta VG standa frammi fyrir sinni ákvörðun:

„Ég hefði tekið þá ákvörðun í sporum Bjarna og þá er ekki ljóst hvað VG hefði gert. Valið fyr­ir VG hefði þá verið þetta, að fara í kosn­ing­ar, missa for­sæt­is­ráðuneytið og for­seta þings­ins og stöðu inn­an rík­is­stjórn­ar­inn­ar ef þeir hefðu viljað halda því til streitu að setja einn af ráðherr­um Sjálf­stæðis­flokks­ins af,“ sagði Sigmundur.

Ættum að láta rykið setjast í nokkra daga

Rósa er á þeirri skoðun að íslenska ríkið ætti ekki að vísa málinu til yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu en Sigmundur er á öðru máli. 

„Per­sónu­lega er ég á þeirri skoðun að við eig­um ekki að áfrýja. Ráðherr­ar hafa farið of bratt í að segja að ríkið ætli að áfrýja. Við þurf­um að láta rykið setj­ast í nokkra daga áður en við för­um í þá ákvörðun. Það yrði meiri sneypu­för ef við áfrýjuðum þess­um dómi og það er ekki einu sinni útséð um að við fáum meðferð þar,“ sagði Rósa.

Hún sagði að við þyrftum að velta því fyrir okkur hverju við værum að áfrýja. Verið væri að fjalla um mannréttindi; rétt einstaklinga til að leita réttar síns. „Við þurf­um að sýna smá auðmýkt í að halda vörð um mann­rétt­indi,“ sagði Rósa og bætti við, spurð, að Landsréttur væri óstarfhæfur.

Við höf­um stofnað milli­dóm­stig og und­ir­bún­ing­ur hef­ur verið í gangi í mörg ár og síðan er því klúðrað. Ann­ars veg­ar að skipa fjóra dóm­ara upp á nýtt eða alla dóm­ara upp á nýtt.“

Sigmundur sagði að það þyrfti að finna lögfróðari menn en hann til að aðstoða stjórnvöld við þetta mál en hann er á því að vísa eigi málinu áfram. „Áfrýjunin væri fyrst og fremst greiði við Mannréttindadómstólinn því hann þarf að fá tækifæri til að útskýra á hvaða braut hann er. Ég hefði lent í minnihlutanum í þessari niðurstöðu.“

Hér má hlusta á viðtal Bjartar við Rósu Björk og Sigmund í heild sinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina