Kviknaði í gufubaði í Breiðholti

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út nú rétt fyrir hálfellefu í kvöld vegna elds sem kviknaði í gufubaði í einbýlishúsi í Breiðholti. Samkvæmt vakthafandi slökkviliðsmanni voru fjórir íbúar hússins komnir út og búnir að slökkva eldinn þegar slökkviliðið kom á staðinn.

Gengið var úr skugga um að allur eldur væri slökktur og reykræsti slökkviliðið svo húsið áður en það fór á brott, en starfi er lokið á vettvangi. Talsverður reykur var á baðherbergi og í gufubaði, en reykræsting gekk vel.

Bílar af öllum slökkviliðsstöðvum voru sendir af stað þegar boðið kom fyrst, en þegar ljóst var að ekki væri um stórt verkefni að ræða voru bílar afturkallaðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert