Mikið annríki hjá lögreglunni

mbl.is/Eggert

Mjög mikið hefur verið að gera hjá lögreglu nú siðdegis og í kvöld en 52 verkefni hafa komið inn á borð hennar á átta klukkustunda tímabili, að því er lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greinir frá nú í kvöld. Nokkuð hefur verið um líkamsárásir og hafa nokkrir verið handteknir í aðgerðum lögreglu.

Klukkan 22:40 var tilkynnt um tvo menn eiga í átökum í heimahúsi og að þeir væru að beina hnífum gegn hvor öðrum í Austurbæ Reykjavíkur. Mennirnir höfðu lagt niður hnífana þegar lögreglu bar að. Engin meiðsli á fólki, að því er lögreglan greinir frá. 

Klukkan 21:21 var maður handtekinn eftir að tilkynning barst frá vegfaranda vegna aksturslags ökumanns bifreiðar. Ökumaðurinn reyndist vera undir áhrifum fíkniefna sem og vera með fíkniefni í fórum sínum. Hann reyndist líka vera vopnaður eggvopnum.

Veittist að lögreglu

Þá var karlmaður handtekinn í Breiðholti kl. 20:48 í kvöld eftir að hafa veist að lögreglu með ofbeldi. Lögregla var kölluð til þar sem maðurinn hafði hótað og ráðist á aðra með ofbeldi. Hann var í mjög annarlegu ástandi sökum fíkniefnaneyslu.

mbl.is/Eggert

Klukkan 21:17 fékk lögregla tilkynningu um líkamsárás í Hraunbæ. Vitað er hver hinn grunaði er og málið er til rannsóknar hjá lögreglu.

Um fimm mínútum síðar var tilkynnt um líkamsárás í Mosfellsbæ. Tveir hlutu meiðsl en þau eru minni háttar að sögn lögreglu. 

Ráðist að manni sem var að gera við bíl

Laust fyrir kl. 17 í dag var ráðist að fólki sem var með bilaðan bil á bifreiðarstæði í Austurbænum. Verið var að vinna að viðgerð þegar veist var að fólkinu en um minni háttar bilun var að ræða í bifreiðinni. Árásarmennirnir brutu rúður í bifreiðinni og fóru svo á brott, talsvert einkatjón varð en engin meiðsli urðu á fólki.

Klukkan 16:29 voru höfð afskipti af ungmennum í Hafnarfirði sem voru að sprengja flugelda sem þau höfðu rifið í sundur. Barnaverndaryfirvöldum hefur verið gert viðvart um málið sem og foreldrar ungmennanna látnir vita af háttseminni.

Undir áhrifum fíknefna við akstur

Klukkan 21:54 var maður handtekinn í Austurbænum vegna gruns um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna. Annar maður var handtekinn í Vesturbæ Reykjavíkur um 20 mínútum áður vegna gruns um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna.

Þá handtók lögreglan ökumann í Hafnarfirði um klukkan þrjú í dag vegna gruns um að hann hefði ekið ölvaður.

Lögreglan hefur einnig þurft að sinna verkefnum sem tengjast innbrotum og brunaútköllum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert