Minnihlutaálit eins og skoðanapistill

Sveinn Andri Sveinsson.
Sveinn Andri Sveinsson. mbl.is/Árni Sæberg

Hvaða mál sem er fyrir Landsrétti, þar sem einhver af dómurunum fjórum sem dómsmálaráðherra skipaði gegn hæfismati nefndar, hefði getað orðið prófmál fyrir Mannréttindadómstólnum. Þetta er mat Sveins Andra Sveinssonar lögmanns.

Sveinn Andri var gestur Bjart­ar Ólafs­dótt­ur í þjóðamálaþætt­in­um Þing­völl­um á K100 í morgun. Þar ræddu þau dóm Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu í Lands­rétt­ar­mál­inu svo­kallaða sem féll í vik­unni.

Sveinn sagði niðurstöðu MDE ekki bindandi fyrir íslenska dómstóla en væri hluti af alþjóðlegum skuldbindingum dómstóla hér á landi. Stjórnvöld hafi alltaf farið eftir túlkunum sem hafi orðið ofan á í alþjóðlegum dómum.

Töluvert hefur verið fjallað um álit tveggja dómara af sjö í Mannréttindadómstólnum en þeir telja niðurstöðu hinna fimm í málinu vera langt um­fram til­efni þegar þeir segja brot „sví­v­irðileg“. Þá telja þeir einnig aðferðafræði meiri­hlut­ans ótrausta í ljósi þess að ekki sé sér­stak­lega skoðað hver áhrif skip­an dóm­ara hef­ur á rétt­láta málsmeðferð.

„Meiri­hluta­at­kvæðið er eins og hefðbund­inn dóm­ur. Minni­hluta­álitið er eins og skoðanap­ist­ill eða blaðagrein,“ sagði Sveinn. Hann bætti við að íslenski fulltrúi MDE, Róbert Spanó, væri forseti en viki þegar fjallað væri um málefni Íslands. Það væri því varaforseti dómsins sem mikið væri hampað af þeim sem vilja líta fram hjá dómnum.

Ólíklegt að breytt niðurstaða fáist

Hvað varðar framhaldið sagði Sveinn að í raun og veru væru bara tveir kostir í stöðunni, vísa málinu til yfirdóms eða una niðurstöðunni. Fyrri kosturinn hefði í för með sér frekari óvissu. 

„Það er mjög ólíklegt að breyting verði á niðurstöðunni en meirihlutaniðurstaðan var vel rökstudd og það er ólíklegt að henni verði breytt,“ sagði Sveinn sem benti á að nýr dómsmálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, væri ekki bundin af yfirlýsingum forvera hennar í starfi.

„Ég hefði talið skynsamlegast fyrir ráðherrann að horfa til þess sem fagaðilinn dómstólasýslan lagði upp með; að una niðurstöðunni til að eyða óvissunni með Landsrétt sem fyrst. Þetta er mjög mik­il­væg­ur dóm­stóll og það er mik­il­vægt að það sé eng­in óvissa í kring­um hann.“

Málið snýst ekki um persónur

Sveinn sagði að það þurfi að vinna með stöðuna eins og hún er í dag og það þurfi að skipa fjóra nýja dómara. „Þetta snýst ekki um per­són­ur, þetta snýst um Lands­rétt og dóms­kerfið í land­inu.“

Spurður sagði Sveinn að lögmenn hefðu rætt sín á milli um stöðuna sem komin væri upp í Landsrétti og almennt meti menn hvert mál fyrir sig áður en þeir íhugi að skjóta því til Mannréttindadómstólsins ef einhver dómaranna fjögurra hefur dæmt málið.

Hér má hlusta á viðtalið í heild sinni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert