Réðst á dyraverði

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölda útkalla í gærkvöldi og nótt …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölda útkalla í gærkvöldi og nótt vegna þjófnaðar, umferðaróhappa, ölvunar og almennra óspekta. mbl.is/Arnþór Birkisson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nægu að snúast í gærkvöldi og nótt vegna tilkynninga um þjófnað, umferðaróhappa, ölvunar og almennra óspekta.

Rétt fyrir klukkan sex í gærkvöldi barst lögreglu tilkynning um hnupl úr verslun í hverfi 108. Þjófurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu meðan unnið var í máli hans en illa gekk að fá túlk svo hægt væri að ræða við geranda. Maðurinn var látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Skömmu síðar var tilkynnt um nakinn mann í almennri aðstöðu við Reykjavíkurflugvöll. Í dagbók lögreglu kemur fram að þarna hafi verið um að ræða erlendan heimilislausan mann sem hefur vanið komur sínar þarna og notar m.a. almenningssalernið til að þrífa sig. Manninum var vísað burt.

Um klukkan hálfellefu barst lögreglu tilkynning um umferðaróhapp í miðbænum. Tjónvaldur stakk af frá vettvangi en var handtekinn skömmu síðar grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna og var hann vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknarhagsmuna.

Um klukkutíma síðar var tilkynnt um annað umferðaróhapp, nú í hverfi 108. Ökumaður bifreiðar hafi ekið á tvær til þrjár kyrrstæðar bifreiðar. Tjónvaldur handtekinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna og var hann vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknarhagsmuna.

Þá var maður í annarlegu ástandi handtekinn um klukkan hálfþrjú í nótt við veitingahús í hverfi 101. Maðurinn hafði ráðist á dyraverði og var í átökum er lögregla kom. Maðurinn var vistaður sökum ástands í fangageymslu.

Lögreglan sinnti sömuleiðis tveimur útköllum í Hafnarfirði og Kópavogi vegna ofurölvi fólks. Rétt fyrir miðnætti var ofurölvi maður handtekinn við veitingahús í Hafnarfirði og var hann vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu. Um klukkan hálfellefu barst tilkynning um par í átökum við veitingahús í Kópavogi 200. Parið var ofurölvi og neitaði að segja til nafns og fór ekki að fyrirmælum lögreglu. Er lögreglumenn voru að handtaka manninn réðst konan að þeim og tálmaði störf þeirra. Voru þau bæði handtekin og vistuð sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Lögreglan var einnig kölluð til í heimahús í Grafarholti rétt fyrir miðnætti vegna slyss. Samkvæmi var í gangi og var kona að nota hníf til að opna flösku. Hnífurinn rann til í hendi konunnar og hlaust af mikil blæðing. Áhöfn sjúkrabifreiðar kom á vettvang, bjó um sárið og flutti síðan konuna til aðhlynningar á slysadeild.

Þá sinnti lögreglan fjölda útkalla í heimahús vegna ölvunar, tilkynninga um hávaða og unglingapartý.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert