Segir ráðist að tekjum sveitarfélaga

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ljósmynd/Aðsend

Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Aldís Hafsteinsdóttir, segir að framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga myndu skerðast sjálfkrafa ef hagkerfið kólnar. Þær skerðingar sem séu áformaðar nú séu til þess fallnar að skerða framlögin áður en tilefni er til þess og að þær komi verst út fyrir minni sveitarfélög.

„Það er náttúrulega alveg morgunljóst að ef hagkerfið er að kólna þá munu framlög inn í jöfnunarsjóð lækka sjálfkrafa vegna þess að þau taka mið af tekjum ríkisins og ef tekjur ríkisins lækka þá lækka framlögin einnig. Þannig að ég held að það ætti ekki að vera áhyggjuefni en það er alveg ljóst að við munum ekki vilja sjá þessa grundvallarbreytingu á aðferðafræðinni við framlögin.“

Eðlilegt að grípa til harðorðra bókana

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að skerðingarnar væru tilkomnar vegna kólnandi hagkerfis. Áður hafði Samband íslenskra sveitarfélaga sent frá sér harðorða bókun vegna skerðinga sem fjármála- og efnahagsráðherra lagði til á framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Aldís segir að tillagan hafi komið stjórn sambandsins í opna skjöldu. „Við höfum átt í fínum samskiptum við ríkið varðandi lög um opinber fjármál og þess vegna kom þetta okkur svo gríðarlega á óvart. Í fyrsta lagi aðferðafræðin og í öðru lagi að standa svona að þessu. Af því að við höfum litið á okkur sem samherja í hinum opinberu fjármálum, verandi annað af tveimur stjórnsýslustigum landsins.“

Sigurður Ingi sagði bókun sambandsins óþarflega harðorða. Um það segir Aldís: „Ég held að ráðherrarnir hljóti að hafa skilning á því að stjórn sambandsins sem talsmaður sveitarfélaganna grípi til aðgerða og harðorðra bókana þegar verið er að ráðast með þessum hætti á grundvallartekjustofn sveitarfélaga.“

Skerðingar mögulega upp á 3,4 milljarða

Skerðingarnar gætu haft mikil áhrif á starfsemi sveitarfélaganna. „Miðað við hagspár þá lítur þetta út fyrir að geta verið tap fyrir sveitarfélögin upp á 3,4 milljarða. Það eru auðvitað peningar sem sveitarfélögin hafa búist við að fá og þurfa á að halda til þess að standa straum af kostnaði vegna verkefna sem meðal annars ríkið hefur falið okkur að sjá um,“ segir Aldís.

Kemur verst út fyrir minni sveitarfélög

Aðspurð segir Aldís að ef til skerðinganna kæmi myndi það koma verst við minni sveitarfélög. „Ég held að það sé engin spurning. Sveitarfélög eru auðvitað misvel í stakk búin til þess að takast á við tekjuskerðingu. Í sveitarfélögum í dreifðari byggðum, til dæmis á Norðurlandi og á Vestfjörðum, eru sveitarfélög sem eru kannski háðari framlögum úr jöfnunarsjóðnum heldur en mörg önnur og þar hefur þetta gríðarleg áhrif.“

Aldís er bjartsýn á að sveitarfélögin geti komist að samkomulagi við ríkið. „Bókun Sambands íslenskra sveitarfélaga lítur að því að við hefjum núna viðræður. Ég trúi ekki öðru en að ráðherrar séu tilbúnir til þess. Það eru ýmsir möguleikar í stöðunni sem við hefðum mjög gjarnan viljað ræða við ríkisvaldið án þess að til svona aðgerða yrði gripið.“

Í bókun sambandsins segir að ráðist verði til róttækra aðgerða ef ekki fáist ásættanleg niðurstaða. Um það hvers konar aðgerðir það væru vill Aldís ekki tjá sig. „Það er alveg hægt að ná niðurstöðu í svona málum svo allir geti unað sáttir við sitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert