Vilja hærri framlög í aðgerðir gegn hlýnun jarðar

Frá flokksstjórnarþingi Samfylkingarinnar um helgina.
Frá flokksstjórnarþingi Samfylkingarinnar um helgina. Ljósmynd/Berglaug Petra

Setja ætti 2,5% af þjóðarframleiðslu í aðgerðir gegn hlýnun jarðar og hækka framlög Íslands til þróunarsamvinnu upp í 0,7% af vergum þjóðartekjum. Þá ættu öll opinber störf að vera án staðsetningar, sem þýðir að hægt sé að sinna þeim hvar sem er á landinu óháð búsetu, nema aðstæður krefjist annars. Þetta var meðal þeirra ályktana sem samþykktar voru á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem haldinn var á Bifröst um helgina.

Fram kemur í ályktun um loftslagsmál að Samfylkingin krefjist þess að stjórnvöld ráðist í metnaðarfyllri aðgerðir gegn hlýnun jarðar. Tekið er undir kröfu ungmenna sem hafa á Íslandi og víðar um heim farið fram á að 2,5% af þjóðarframleiðslu heimsins renni beint í slíkar aðgerðir. Þá er einnig talið nauðsynlegt að hækka kolefnisgjaldið enn frekar og var þingflokki Samfylkingarinnar falið að leggja fram slíkt frumvarp.

Í ályktun um þróunarsamvinnu er bent á að samkvæmt stefnu núverandi ríkisstjórnar sé stefnt að því að hækka framlög til þróunarsamvinnu upp í 0,35% af vergum þjóðartekjum, en árið 2017 var hlutfallið 0,31%. Á öðrum Norðurlöndum er hlutfallið um 0,7% og segir í ályktuninni að núverandi staða lýsi í raun metnaðarleysi. „Á þessum sviðum eru tröllauknar áskoranir. Því er lágmarkskrafa að ríkt land á borð við Ísland geri sitt ýtrasta í þessum efnum.“

Þá segir í ályktun um störf án staðsetningar að það sé réttlætismál að fólk eigi kost á að sinna ríkisstörfum þótt það búi á landsbyggðinni. Vísað er til þess að 64% þjóðarinnar búi á höfuðborgarsvæðinu og þar séu um 70% ríkisstarfa staðsett. „Hér hallar því á landsbyggðina. Flokksstjórn Samfylkingarinnar ályktar að opinber störf á vegum ríkisins skuli ávallt vera án staðsetningar, nema aðstæður krefjist annars,“ segir í ályktuninni.

Samtals voru fjórar ályktanir samþykktar á flokksþinginu, en sú fjórða fjallar um að stíga skref í átt að aðild að Evrópusambandinu. Sjö ályktunum var vísað til málefnanefndar eða stjórnar flokksins til frekar vinnslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert