Áhyggjur af viðræðuslitum SGS

Þorsteinn Már Baldvinsson segir verkföll alvarleg fyrir bæði atvinnurekendur og …
Þorsteinn Már Baldvinsson segir verkföll alvarleg fyrir bæði atvinnurekendur og launþega. mbl.is/RAX

„Þetta er alvarleg staða. Í sjómannaverkfallinu [fyrir tveimur árum] misstum við viðskiptavini af því að við gátum ekki afhent. Eftir það komu ekki allir okkar viðskiptavinir til baka og ég að sjálfsögðu óttast það ef við erum að fara inn í verkföll tveimur árum seinna,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, í samtali við mbl.is.

„Kjaradeilur eru mjög alvarlegar fyrir bæði atvinnurekendur og launþega. Það hlýtur að vera markmið okkar allra að ná samkomulagi og ég vona að okkur takist það,“ bætir hann við.

Starfsgreinasambandið sleit í dag viðræðum við Samtök atvinnulífsins og ná samningarnir meðal annars til fiskverkafólks, sjómanna, starfsmanna í kjötiðnaði og mjólkuriðnaði.

„Þetta er bara í höndum Samtaka atvinnulífsins, meira hef ég ekki um málið að segja í raun og veru,“ segir Bjarni R. Brynjólfsson, skrifstofustjóri Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði, þegar mbl.is leitar eftir áliti hans á stöðunni. Spurður hvort félagsmenn samtakanna hafi áhyggjur af mögulegum verkföllum svarar Bjarni: „Það hljóta allir að hafa áhyggjur af verkföllum.“

Stöðvun pantana jafn mikil áhrif

„Ég held það sé ekkert öðruvísi hjá okkur en öðrum ef stefnir í allsherjarverkföll í maí,“ segir Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, í samtali við mbl.is. Hann segir hugsanlega ekki breyta miklu hvort verða verkföll starfsfólks í kjötiðnaði ef önnur verkföll valda því að fyrirtækið hætti að fá pantanir.

„Við höfum engar upplýsingar enn þá um einhverjar aðgerðir til þess að taka einhverja afstöðu til. Þetta er bara í óefni eins og allir sjá,“ segir Steinþór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert