Bótaskylt vegna húss sem má ekki rífa

Holtsgata 5.
Holtsgata 5. Ljósmynd/Ja.is

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur viðurkennt skaðabótaábyrgð íslenska ríkisins á tjóni sem framkvæmd laga um menningarminjar olli eiganda fasteignar á Holtsgötu í Reykjavík.

Framkvæmdin hafði í för mér sér að vegna þess að húsið var friðað gat maðurinn ekki nýtt sér rétt samkvæmt deiliskipulagi til að auka verulega byggingarmagn á lóð sinni. 

Maðurinn, sem er ekki löglærður, flutti málið sjálfur fyrir dómi. Húsið, sem var byggt árið 1904, var fyrst í eigu móður mannsins sem nú er látin. Málið nær aftur til ársins 2005 þegar borgarráð Reykjavíkur samþykkti deiliskipulag um svokallaðan Holtsgötureit þar sem húsið stendur. Þótt deiliskipulagið hafi fært móður mannsins ákveðin verðmæti, þar sem auka mátti byggingarmagn á lóð hennar umtalsvert, felldi hún sig ekki við skipulagið vegna fyrirætlana um byggingu fjölbýlishúss á næstu lóð.

Kærði hún því deiliskipulagið til æðra stjórnvalds og krafðist síðar bóta vegna þess í dómsmáli sem lyktaði með dómi Hæstaréttar 1. mars 2012. Féllst rétturinn ekki á það með konunni að deiliskipulagið hefði falið í sér skerðingu á verðmæti fasteignar hennar eða hagnýtingarmöguleikum svo bótaskyldu varðaði.

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Árið 2015 fól dánarbú móður mannsins fasteignasölu að selja fasteignina. Mun hafa verið vikið að því í auglýsingu um fasteignina að heimilt væri samkvæmt deiliskipulagi að rífa húsið.

Þann 17. nóvember 2015 barst fasteignasölunni tölvupóstur frá Minjastofnun Íslands þar sem vakin var athygli á því að stofnunin myndi hvorki veita heimild til niðurrifs á húsinu né afnema friðun þess. Sú ákvörðun var síðar staðfest með úrskurði forsætisráðuneytisins. Í sama mánuði lagði fjölskylda mannsins fram fyrirspurn til Reykjavíkurborgar um það hvort heimilt væri að rífa húsið og byggja í stað þess hús í samræmi við gildandi deiliskipulag. Sú heimild fékkst ekki.

Húsið er 96,9 fermetrar en samkvæmt deiliskipulaginu sem maðurinn byggði málatilbúnað sinn á var þar gefið leyfi til að rífa húsið og byggja annað sem yrði að hámarki þrjár hæðir, kjallari og ris. Fram kemur að byggingarmagn á lóðinni skuli ekki fara yfir 235 fermetra. Í því fælist rúmlega 140% aukning byggingarmagns á lóðinni sem staðsett er miðsvæðis í Reykjavíkurborg.

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði frá dómi kröfu hans um að viðurkennt yrði með dómi að stefndu, íslenska ríkið og Minjastofnun Íslands, séu sameiginlega bótaskyldir vegna tjónsins sem tafir af völdum stjórnsýslumeðferðar og ákvarðana stefndu hafi valdið honum við ráðstöfun fasteignar sinnar.

Við úrlausn málsins var litið sérstaklega til þess að umrædd réttindi samkvæmt deiliskipulagi höfðu komið til áður en lög nr. 80/2012 voru sett. Þá var orðið ljóst að maðurinn varð fyrir tjóni sem bar að bæta og var því fallist á viðurkenningarkröfu hans. Stefndu var gert að greiða honum sameiginlega 1,2 milljónir króna í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert