Búi sig undir að fjölga dómurum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í þingsal í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í þingsal í dag. mbl.is/Hari

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í ræðu sinni á Alþingi í dag að mögulega þyrftu alþingismenn að vera undir það búnir að samþykkja á næstunni fjölgun dómara við Landsrétt, til þess að tryggja eðlilegt starfsumhverfi dómstólsins í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE).

„Við þurfum að gera ráð fyrir því að til þess geti komið, þó að það liggi ekki fyrir sem stendur,“ sagði Katrín.

Þá sagði hún að ekki væri ólíklegt að kallaður yrði til erlendur sérfræðingur til þess að fara nánar yfir málið með henni sjálfri og Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur ráðherra dómsmála og skoða það ítarlega hvort tilefni væri til þess að láta á það reyna hvort yfirdeild MDE tæki málið fyrir.

„Aðilar máls hafa þrjá mánuði til að taka slíka ákvörðun og að sjálfsögðu er það svo að fyrir þarf að liggja ítarlegt mat á þeim hagsmunum sem þar eru undir áður en endanleg ákvörðun er tekin,“ sagði forsætisráðherra.

Katrín sagði jafnframt að Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, hefði axlað pólitíska ábyrgð á málinu með því að biðjast lausnar frá embætti sínu í síðustu viku.

Forsætisráðherra sagði jafnframt að hún teldi það ekki standast að minnihlutaálit tveggja dómara við MDE hefði ekki vægi, eins og einhverjir hefðu haldið fram í umræðunni um dóminn, sem féll 12. mars síðastliðinn.

Hún lagði áherslu á að frekari tíma þyrfti til að leggjast yfir þetta mál, vega það og meta og að nú hefði þingið tækifæri til þess að takast á við þennan dóm „þannig að sómi sé af“.

mbl.is