Hlutfall atvinnulausra mælist það hæsta í fjögur ár

mbl.is/​Hari

Atvinnuleysi virðist aukast hægt og bítandi um þessar mundir og mældist skráð atvinnuleysi 3,1% á vinnumarkaðinum í seinasta mánuði. Þó að árstíðasveifla skýri alltaf að einhverju marki aukið atvinnuleysi á þessum árstíma hefur svo hátt hlutfall atvinnulausra ekki mælst frá því í aprílmánuði árið 2015. Atvinnuleysið var til samanburðar 2,4% fyrir réttu ári.

5,3% atvinnuleysi í OECD-löndum í byrjun ársins

Atvinnuleysi hefur verið langtum minna hér en í flestum öðrum löndum innan OECD um árabil þar sem það mældist 5,3% að jafnaði í janúarmánuði en hlutfall atvinnulausra hér á landi er þó ekki ýkja frábrugðið því sem er í nokkrum Evrópulöndum sem búa við hvað best atvinnustig s.s. Þýskaland þar sem það var 3,2% í janúar skv. tölum sem OECD birti í seinustu viku. Hlutfallið er þó víðast hvar langtum hærra en hér á landi um þessar mundir; t.a.m. er það 5% í Danmörku, 6,7% í Finnlandi og 6% í Svíþjóð, hefur svo aðeins minnkað í Bandaríkjunum þar sem það var 3,8% í febrúar.

Atvinnuleysi meðal ungs fólks á aldrinum 15 til 24 ára er víða mikið vandamál og það jókst í janúar sé litið á meðaltalið í OECD-löndunum og er komið í 11,3%. Það hefur verið í kringum 15% í löndum Evrópusambandsins og af einstökum nálægum löndum þá voru 9,4% ungmenna í Danmörku án atvinnu í janúar og 17,4% í Svíþjóð, að því er fram kemur í fréttaskýringu um atvinnustigið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert