Ísland nær samningi við Breta

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra staðfestir í samtali við mbl.is að …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra staðfestir í samtali við mbl.is að tekist hefur að landa samningi um viðskipti Bretlands og Íslands ef kemur til Brexit án samnings. mbl.is/Kristinn Magnússon

Búið er að landa samningi milli Íslands og Bretlands sem tryggir óbreytt fyrirkomulag tolla og viðskipta, fari svo að Bretar yfirgefi Evrópusambandið án samnings. Þetta staðfestir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is.

Samkvæmt heimildum norsku fréttaveitunnar NTB lauk samningaviðræðum formlega síðastliðinn föstudag og nær bráðabirgðasamningurinn til vöruskipta milli Bretlands og tveggja EES-ríkja, Íslands og Noregs.

Samningurinn gerir ráð fyrir að ákvæði EES-samningsins sem snúa að viðskiptum milli ríkjanna verði óbreytt. Þannig verður engin breyting á gildandi tollum, né heldur tollalausum viðskiptum iðnaðarvara. Þá verða kvótar fyrir tollfrjáls viðskipti með landbúnaðar- og sjávarútvegsafurðir einnig óbreyttir.

Samningurinn nær þó ekki til þjónustuviðskipta.

Gengið snuðrulaust fyrir sig

Guðlaugur segir íslensk stjórnvöld hafa gert samninginn í samstarfi við norsk yfirvöld og að hann verði kynntur á næstu dögum, einnig að formlega verði gengið frá honum „fljótlega“.

„Þetta í rauninni þýðir að allt sem að okkur snýr, milli okkar og Breta — sama hvernig að útgöngu er staðið  þá er búið að ganga frá því,“ segir ráðherrann. „Við höfum verið mjög ánægð með viðbrögð Breta og það sem snýr að samningum sem þá varðar. Við eigum ekki von á öðru en að í framhaldinu sé hægt að ná góðum samningi, því þessi er til bráðabirgða.“

Hann segist ánægður með að hafa náð að tryggja óbreytta umgjörð viðskipta milli ríkjanna. „Þetta hefur bara gengið snuðrulaust fyrir sig,“ segir Guðlaugur.

Brexit-samningur May ekki aftur fyrir þingið að óbreyttu

Þrátt fyrir að breska þingið hafi hafnað í atkvæðagreiðslu að Bretland gangi úr Evrópusambandinu án samnings og samþykkt að óska eftir frestun útgöngunnar, er ekki öruggt að að Evrópusambandið verði við slíkri beiðni.

Þá hefur Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, lýst því yfir að hún muni leggja fram Brexit-samning í þriðja sinn nú í vikunni. Hins vegar hefur forseti breska þingsins, John Bercow, sagt að hann hyggist ekki setja samninginn á dagskrá þingsins á ný nema hann taki verulegum breytingum, að því er fram kemur í umfjöllun Guardian.

Fagnar áfanganum

Liam Fox, ráðherra utanríkisviðskipta Bretlands, fagnar í Twitter-færslu samningnum. Þá séu verðmæti viðskipta við EES-ríkin andvirði 30 milljarða punda árlega, að jafnvirði rúmlega 4 þúsund milljarða íslenskra króna.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is

Bloggað um fréttina