Klaustursmálið „bleiki fíllinn“

Frá málþinginu í morgun. Ragna Árnadóttir, fremst á myndinni, var …
Frá málþinginu í morgun. Ragna Árnadóttir, fremst á myndinni, var fundarstjóri. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér líður svolítið eins og þetta sé bleiki fíllinn hérna inni,“ sagði Fríða Rós Valdimarsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands, áður en hún spurði um Klaustursmálið á málþinginu „Stjórnmálin og #MeToo“ í morgun.

Þingmenn alla flokka ræddu aðgerðir í kjölfar #MeToo-byltingarinnar og var langt liðið á umræðuna þegar Fríða benti á fílinn í herberginu.

Hún sagði Klaustursmálið snerta marga flokka og allt í einu sé Alþingi sem vinnustaður ekki til fyrirmyndar. Fríða sagðist ótrúlega stressuð að segja þetta. 

Óviðunandi að þurfa að umgangast geranda

„Það er óviðunandi að vera alltaf í kringum þinn geranda,“ sagði Fríða og benti á að í tengslum við #MeToo-mál hefði fjöldi kvenna leitað til hennar. Eins og kunnugt er ræddu þingmenn Miðflokksins á afar óviðeigandi hátt um samstarfskonur sínar á Klausturbar 20. nóvember.

„Það er alls ekki viðunandi hvernig tekið hefur verið á þessu máli, langt frá því. Það skýrist af hluta til af viðbrögðum okkar sjálfra, hvernig allir þingmenn hafa tekið á þessu,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.

Segir gerendur ekki taka ábyrgð

„Gerendurnir í þessu máli bera gríðarlega mikla ábyrgð og þeir neita að taka hana,“ sagði Þórhildur Sunna og hélt áfram:

„Þeir reyna að benda á alla aðra þingmenn, alla aðra karla á þingi, og segja að svona tali allir karlarnir um konurnar þegar þær heyra ekki til. Þetta sé alvanalegt, ekkert merkilegt og talað sé um konurnar eins og einhverja hluti. Þeir segja að það sé eitthvað sem konur á Alþingi þurfi að sætta sig við,“ sagði Þórhildur Sunna.

„Það er ekki í lagi að koma svona fram við okkur.“

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og ein þeirra sem greindi frá því að hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu þingmannanna á Klaustri bar, sagði viðbrögð þjóðarinnar við því sem átti sér stað þar hafa verið afskaplega skýr.

„Við líðum ekki svona hegðun og ofbeldi,“ sagði Lilja. Hún bætti við að fjöldi ungra kvenna hefði komið að máli við hana og sagt það frábær skilaboð að svona ummæli verði ekki liðin opinberlega.

„Þetta gerðist og við þurfum að vera skýr; nei, þetta er ekki í lagi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert