Niðurstöðurnar áhyggjuefni

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Martin Chungong, framkvæmdastjóri Alþjóðaþingmannsambandsins.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Martin Chungong, framkvæmdastjóri Alþjóðaþingmannsambandsins. mbl.is/Árni Sæberg

„Þarna er um að ræða líflátshótanir og hótanir um nauðganir og barsmíðar,“ sagði Martin Chungong, framkvæmdastjóri Alþjóðaþingmannasambandsins IPU, um niðurstöður nýrrar rannsóknar, þar sem kynjamismunun og kynbundið ofbeldi og áreitni gegn konum í þjóðþingum í Evrópu var kannað.

Chungong fjallaði um niðurstöðu rannsóknarinnar á morgunverðarfundi á Grand hóteli í morgun en fundurinn bar yfirskriftina „Stjórnmálin og #MeToo“.

Fram kom í máli Chungong að 85% evrópskra þingmann hafi orðið fyrir kynbundnu ofbeldi í starfi. Hann sagði niðurstöðurnar sláandi og að þær valdi áhyggjum.

46,9% þingkvenna sem tóku þátt í rannsókninni höfðu fengið hótanir um líflát eða nauðganir, 58% hafa orðið fyrir barðinu á rógsherferðum á samfélagsmiðlum vegna kynferðis síns og 67,9% hafa heyrt sögð um sig kynferðislega niðrandi ummæli.

Hann sagði að reynt væri af miklum krafti að auka þátttöku kvenna í stjórnmálalífi en svona ofbeldi og áreitni fæli konur frá stjórnmálaþátttöku. 

„Þú ert of heimsk og falleg. Farðu aftur í eldhúsið,“ og „af hverju ætti falleg kona eins og þú að vilja ræða svona alvarleg mál?“ voru meðal ummæla sem konur nefndu í rannsókninni.

Chungong sagði að það þyrfti að taka hart á brotunum en kynferðislegt ofbeldi af hvaða tagi sem það er eigi ekki að líðast. Þingin þurfi að tryggja að fórnarlömb ofbeldis geti leitað sér aðstoðar og að þar sé fyllsta trúnaðar gætt. Auk þess þurfi menningin í stjórnmálum að breytast.

„Margir vita ekki að það sem þeir gera eða segja er rangt. Það þarf að virða náungann og fræða fólk,“ sagði Chungong, sem vill að þeim sem brjóti af sér verði refsað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert