Starfsgreinasambandið slítur viðræðum

Fundi var slitið eftir rúman hálftíma.
Fundi var slitið eftir rúman hálftíma. mbl.is/Árni Sæberg

Starfsgreinasambandið hefur slitið viðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins. Fundi samningsaðila hjá ríkissáttasemjara var slitið eftir rúmlega hálftíma og tilkynnti Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, fjölmiðlum ákvörðunina fyrir utan fundarherbergið.

„Það barst ekkert nýtt tilboð frá Samtökum atvinnulífsins,“ sagði Björn.

„Þetta þýðir að við förum í að kalla saman okkar aðgerðahóp og þar munum við taka ákvörðun um það hvernig við munum í framhaldinu skipuleggja okkur til þess að setja meiri þrýsting á að ná kjarasamningum,“ sagði Björn. Viðbúið er að allt að 20.000 félagsmenn fari í verkföll í apríl eða maí.

Aðspurður hvað bæri helst á milli viðræðunum segir Björn það vera vinnutímann. „Það er það sem liggur þyngst á okkar fólki og þar viljum við fá betrumbót áður en gengið verður frá kjarasamningum.“

Hann segir að árangri hafi verið náð á mörgum sviðum samningsgerðarinnar og að nokkur atriði séu nánast komin í hús. Það séu helst vinnutímamál sem standi út af.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert