Taldi tillöguna ekki tímabæra

mbl.is/Hjörtur

„Ég taldi þessa tillögu einfaldlega ekki tímabæra,“ segir Hervör Þorvaldsdóttir, forseti Landsréttar, í samtali við mbl.is spurð um bókun stjórnar Dómstólasýslunnar fyrir helgi sem síðan var send til fjölmiðla en Hervör greiddi atkvæði gegn henni.

Farið var fram á það í bókuninni að dómsmálaráðuneytið hlutaðist til um lagabreytingu um að heimilt yrði að fjölga dómurum við Landsrétt. Vísað var til þess að fjórir dómarar við réttinn gætu að óbreyttu ekki tekið þátt í dómstörfum. Án þess að gripið verði til þessa úrræðis mun álagið við réttinn aukast verulega með tilheyrandi drætti á meðferð mála.“

Fjórir stjórnarmenn í Dómstólasýslunni greiddu atkvæði með bókuninni en tilefni hennar var dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í síðustu viku þar sem meðal annars var fjallað um skipun dómara við Landsrétt. Hervör segist telja eðlilegt að stjórnvöld fái eðlilegt ráðrúm til þess að taka ákvörðun um það með hvaða hætti verði brugðist við stöðunni.

Vísar hún í því sambandi til tilkynningar dómara við Landsrétt frá því á föstudaginn þar sem kemur fram að starfsemi Landsréttar verði haldið áfram frá og með deginum í dag samkvæmt breyttri dagskrá þar sem ellefu af fimmtán dómurum muni sinna dómstörfum. Þar er um bráðabirgðafyrirkomulag að ræða þar til varanleg lausn liggur fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert