Hægt að vera ósammála án óviðeigandi ummæla

Katrín Jakobsdóttir opnaði fundinn í morgun.
Katrín Jakobsdóttir opnaði fundinn í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Sá tími er liðinn að hægt sé að horfa í kringum fingur sér varðandi mál sem tengja má við #MeToo-byltinguna og við þurfum að geta tekið á slíkum óþægilegum málum. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fundi í morgun.

Yfirskrift fundarins var „Stjórnmálin og #MeToo“ og var þetta í annað sinn sem allir flokkar á Alþingi taka höndum saman og ræða MeToo á morgunverðarfundi.

Forsætisráðherra sagði að það einfaldasta sem stjórnmálafólk gæti gert væri að fara með mál tengd #MeToo í flokkspólitískan farveg og sagði hún að það hefði gerst í löndunum í kringum okkur.

Það mætti ekki gerast en fólk væri mætt á fund dagsins til að taka höndum saman og til að ná sameiginlegu markmiði.

„Þetta á ekki að snúast um að konur segi ekki frá því þær séu að vinna gegn eigin stjórnmálaflokki með því,“ sagði Katrín.

Hún sagði að allir flokkar þyrftu að skoða sín mál og eflaust færu þeir mismunandi leiðir. „Ég held að ekkert okkar hér inni viti nákvæmlega hver besta leiðin er,“ sagði Katrín og ítrekaði að það þyrfti að taka á óþægilegum málum.

Stjórnmálafólk þyrfti að vera meðvitað um sérstöðu stjórnmálanna, þar sem samkeppnin er gríðarleg. Það þýði að færri komast að en vilja. „Samkeppni getur leitt vil valdabaráttu,“ sagði Katrín og bætti við að það gæti aukið líkur á ofbeldi og einelti.

„Við getum verið ósammála og rökrætt málin án þess að grípa til óviðeigandi ummæla,“ sagði Katrín.

Við þurfum að bregðast við #Metoo-frásögnum úr þessari jafnréttisparadís,“ sagði Katrín. Að hennar mati höfðu sögur kvenna af erlendum uppruna mest áhrif, ekki bara vegna þess að sögurnar voru sláandi heldur einnig vegna þess að oft var um að ræða einangraðar konur í ókunnugu landi.

„Við vitum þó að ekki hafa allar sögur hljómað, sagði Katrín og nefndi fatlaðar konur í því samhengi.

mbl.is

Bloggað um fréttina