90 milljónir til lýðheilsuverkefna

Alls hlutu 172 verkefni á sviði geðræktar, næringar, hreyfingar, tannverndar …
Alls hlutu 172 verkefni á sviði geðræktar, næringar, hreyfingar, tannverndar og áfengis-, vímu- og tóbaksvarna styrki að þessu sinni. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra úthlutaði í dag tæpum 90 milljónum króna úr lýðheilsusjóði til fjölbreyttra verkefna og rannsókna um allt land. Alls hlutu 172 verkefni á sviði geðræktar, næringar, hreyfingar, tannverndar og áfengis-, vímu- og tóbaksvarna styrki að þessu sinni.

Auglýst var sérstaklega eftir verkefnum sem varða geðheilsu, geðrækt, heilbrigt mataræði, svefn, hreyfingu og kynheilbrigði og verkefni sem stuðla að auknum heilsufarslegum jöfnuði í þágu minnihlutahópa eða milli kynjanna. Þá var við úthlutun styrkjanna „tekið mið af lýðheilsustefnu og aðgerðum sem stuðla að heilsueflandi samfélagi, stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020 og stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum,“ að því er segir í frétt á vef Stjórnarráðsins.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra afhenti styrkina í Ásmundarsafni í dag.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra afhenti styrkina í Ásmundarsafni í dag. Ljósmynd/Vegagerðin

Hæstu styrkina, þrjár milljónir króna, hlutu lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fyrir verkefni sem snýr að þverfaglegri snemmtækri íhlutun í málefnum barna, FRÆ, félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu fyrir verkefnið Þekking í þágu forvarna 2019 og matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands fyrir verkefni um landskönnun á mataræði og eiturefnagreiningu.

Íþrótta- og ólympíusamband Íslands hlaut 2,25 milljónir króna fyrir almenningsíþróttaverkefnin Lífshlaup og Hjólað í vinnuna, Arnarsson hlaut 2,5 milljónir kr. fyrir þátttöku Íslands í alþjóðlegum rannsóknum á heilsu og líðan unglinga og Rannsóknir og greining fengu 2,5 milljónir króna fyrir rannsóknarverkefnið Er allt að fara til fjandans?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert