Afgerandi stuðningur við umferð

Undanfarið hafa verslunareigendur kannað sín í milli afstöðu til lokana á Laugavegi, Skólavörðustíg og í Bankastræti. Yfirgnæfandi meirihluti, í kringum 90%, segist andvígur algerum lokunum á götunum. Niðurstöðurnar voru kynntar í dag á miklum hitafundi þar sem fólk gerði þó athugasemdir við framkvæmd könnunarinnar.

mbl.is var á fundinum í dag þar sem fólk skiptist á skoðunum en rekstraraðilar hjá rótgrónum verslunum á borð við Brynju, Mál og menningu og Jón og Óskar skora á borgaryfirvöld að hefja raunverulegt samráð í tengslum við útfærslu á lokunum gatnanna. 

„Það sem er að gerast hérna í bænum er svolítið rosalegt,“ segir Bolli Ófeigsson hjá Gullsmiðju Ófeigs sem hefur verið í rekstri í 28 ár. Hann bendir á að verslunum sé almennt að fækka og finnur greinilegan mun á sölunni þegar Skólavörðustíg er lokað, en verslunin stendur á þeim stað sem er lokaður fyrir bílaumferð þegar götunum er lokað. Hann hefur því brugðið á það ráð mennta sig sem rafvirki og býr sig þannig undir að þurfa að loka versluninni.  

Ekki voru þó allir á fundinum sammála. Auðunn Gísli Árnason hefur rekið Skartgripaverslunina Fríðu á Skólavörðustígnum í fjögur ár en þó fyrir ofan svæðið sem er lokað. Hann segist ekki hafa mótað sér skoðun á því hvort lokanirnar séu af hinu góða eða ekki en gerir þó athugasemdir við framkvæmd könnunarinnar. „Þessar niðurstöður eru fengnar á einhverjum persónulegum nótum, frekar en faglegum nótum sem mér finnst ábótavant,“ segir Auðunn.

Borgaryfirvöld hafa í áföngum boðað varanlega lokun á þessum götuköflum og ljóst er að það mun hrista enn frekar upp í verslun á svæðinu.

Yfirlýsing verslunareigenda:

Þær verslanir sem skrifa hér undir þetta bréf hafa allar starfað í miðbænum í 25 ár eða lengur, en samanlögð viðskiptasaga fyrirtækjanna er 1.689 ár. Við höfum því lifað tímana tvenna. Við höfum staðið vaktina þrátt fyrir tilkomu Kringlu, Smáralindar og fleiri verslunarkjarna víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu.

Sumarlokanir gatna í miðbænum frá árinu 2012 og síendurteknar skyndilokanir hafa leitt af sér mikinn samdrátt í verslun. Viðskiptavinir venjast af því að versla hér á þessu svæði þegar götunum er lokað og ástandið versnar í hvert sinn sem lokað er að nýju. Á þetta hefur ítrekað verið bent, meðal annars með veltutölum, en við höfum talað fyrir daufum eyrum borgaryfirvalda.

Staðan í verslun í miðbænum er grafalvarleg. Ýmis rótgróin fyrirtæki eru að hverfa á braut og fleiri að hugsa sér til hreyfings. Það er ekki hvað síst afleiðing götulokana undanfarinna ára. Neikvæð áhrif lokana ná langt út fyrir þau svæði þar sem lokað er. Þrátt fyrir það boða borgaryfirvöld nú í áföngum lokun Laugavegar, Bankastrætis og neðsta hlutar Skólavörðustígs til frambúðar.

Margir í okkar röðum sjá alls engan rekstrargrundvöll í lokaðri götu og telja því eina kostinn að flytja fyrirtækin annað. Til að verslunin fái þrifist þarf aðgengi að henni að vera greitt.

Milli okkar hefur gengið undirskriftalisti þar sem lokunum er mótmælt, en listinn verður kynntur á fundinum á morgun. Enginn þarf að velkjast í vafa um afstöðu meginþorra rekstraraðila í þessu efni.

Nú er mál til komið að borgaryfirvöld hlusti á okkur sem staðið höfum vaktina í fyrirtækjum okkar í áratugi og hefji raunverulegt samráð um leiðir til að efla verslun og þar með mannlíf hér á þessu svæði, því án blómlegrar verslunar er enginn miðbær.

Gullkistan skrautgripaverslun, Frakkastíg 10 (rétt við hornið á Laugavegi) – rekstrarsaga í 147 ár

Penninn Eymundsson, Austurstræti 18, Laugavegi 77, Skólavörðustíg 11 – verslunarsaga í 140 ár

Verslun Guðsteins Eyjólfssonar, Laugavegi 34 – verslunarsaga í 101 ár

Brynja, Laugavegi 29 – verslunarsaga í 100 ár

Guðlaugur A. Magnússon, Skólavörðustíg 10 – verslunarsaga í 95 ár

Listvinahúsið leirkerasmíði og minjagripaverslun – rekstrarsaga í 92 ár

Efnalaugin Úðafoss, Vitastíg 13 (50 metra frá Laugavegi) – rekstrarsaga í 86 ár

Snyrtivöruverslunin Stella, Bankastræti 3 – verslunarsaga í 77 ár

Vinnufatabúðin, Laugavegi 76 – verslunarsaga í 75 ár

Dún og fiður, Laugavegi 86 – verslunarsaga í 60 ár

Gullsmíðaverslun og verkstæði Hjálmars Torfasonar, Laugavegi 71 – verslunarsaga í 60 ár

Mál og menning, Laugavegi 18 – verslunarsaga í 60 ár

Gleraugnasalan 65, Laugavegi 65 – verslunarsaga í 58 ár

Tösku- og hanskabúðin, Laugavegi 103 – verslunarsaga í 58 ár

Herrahúsið, Laugavegi 47 – verslunasaga í 54 ár (flytur nú í Ármúla 27)

Gullsmíðaverslun Guðbrandur J. Jezorski, Laugavegi 48 – verslunarsaga í 53 ár

Gull & Silfur skartgripaverslun og verkstæði – verslunarsaga í 48 ár

Jón og Óskar úra og skartgripaverslun, Laugavegi 61 – verslunarsaga í 48 ár

Gleraugnamiðstöðin Profil-Optik, Laugavegi 24 – verslunarsaga í 47 ár

Linsan gleraugnaverslun, Skólavörðustíg 41 – verslunarsaga í 47 ár

Gilbert úrsmiður, Laugavegi 62 – verslunarsaga í 45 ár

Dimmalimm, Laugavegi 53b – verslunarsaga í 30 ár

Gullkúnst Helgu, Laugavegi 13 – verslunarsaga í 30 ár

Gullsmiðja og Listmunahús Ófeigs, Skólavörðustíg 5 – verslunarsaga í 27 ár

Verslunin Kós, Laugavegi 94 – verslunarsaga í 26 ár

Caruso við Lækjartorg – veitingasaga í 25 ár

Bolli Kristinsson, kaupmaður við Laugaveg

mbl.is

Bloggað um fréttina