Ekki vaktaður þrátt fyrir nauðungarvistun

Ekki var litið til með Hafliða á kortérsfresti líkt og …
Ekki var litið til með Hafliða á kortérsfresti líkt og gera átti þó að geðlæknir hefði metið hann í sjálfsvígshættu. mbl.is/Hari

Ungur maður sem var nauðungarvistaður á geðdeild Landspítalans í ágúst 2017 og metinn í sjálfsvígshættu af geðlækni var látinn afskiptalaus í allt að þrjár klukkustundir, þrátt fyrir að líta hefði átt til með honum á minnst kortérs fresti. Ungi maðurinn svipti sig lífi á Landspítalanum meðan á innlögninni stóð.

Fjallað var um mál mannsins, Hafliða Arnars Bjarnasonar, í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld, þar sem rætt var við móður Hafliða, Ólöfu Aðalsteinsdóttur.

Lögreglan hafði flutt Hafliða á bráðamóttökuna í Fossvogi og þaðan var hann sendur á geðdeild þar sem hann var nauðungarvistaður í þrjá sólarhringa. Geðlæknir hafði metið Hafliða í sjálfsvígshættu, en hann var ósáttur á deildinni og sagði foreldrum sínum er þau komu að hitta hann að hann vildi komast út. Það væri ekki rétt að halda honum þarna, það væri hvort eð er ekkert verið að gera fyrir hann. „Ég bara vinglast hérna um,“,“ rifjar hún upp að hann hafi sagt.

Fjölskylda hans andaði hins vegar öll léttar og var fegin að Hafliði væri kominn í öruggt skjól. Um nóttina hringdi hins vegar lögreglumaður dyrabjöllunni hjá Ólöfu og sagðist þurfa að tala við hana. Sami lögreglumaður hafði komið til hennar kvöldið áður í tengslum við leit að Hafliða.

„Hann var svo skrítinn maðurinn, mér datt fyrst í hug hvort hann væri drukkinn,“ segir Ólöf, „af því að hann var svo allt öðruvísi heldur en kvöldið áður.“ Rannsóknarlögreglumaðurinn sest inn í eldhús og tilkynnir henni andlát Hafliða. „Og ég bara, bíddu, er hann ekki inni á geðdeildinni?“ segir Ólöf. „Hvernig gat hann gert þetta þar?“

Hún segir hvorki prest né nokkurn frá spítalanum hafa komið með lögreglumanninum og að tilfinning fjölskyldunnar hafi verið sú að Landspítalinn hafi álitið andlát Hafliða meira áfall fyrir sig en fjölskyldu hans.

Landspítalinn réðst í kjölfar andláts hans í að gera innri rannsókn til að komast að því hvað hefði misfarist og var aðstandendum Hafliða kynnt niðurstaða þeirrar skýrslu í desember 2017.

Ólöf segir túlkun sína á skýrslunni hafa verið þá að engin mistök hafi átt sér stað. „Það var þarna bara í gangi vítavert kæruleysi,“ segir hún.

Geðlæknir hafði sett Hafliða á kortérsgát og því hafi starfsmaður átt að gæta að honum á fimmtán mínútna fresti. Úr skýrslunni megi hins vegar lesa að allt að þrír klukkutímar hafi liðið frá því hann fór inn á stofu og þar til einhver reyndi að komast inn til hans.

„Það sem er enn alvarlegra í þessu finnst mér, er að það eru vaktaskipti á þessum þremur klukkutímum. Þetta er bara mannaskuld að hann deyr þarna,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert