Faldi sig á háaloftinu hjá mömmu

mbl.is/Arnþór Birkisson

Landsréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Suðurlands yfir karlmanni sem ákærður var fyrir líkamsárás í Vestmannaeyjum síðastliðinn fimmtudag. Manninn, sem var handtekinn vegna fjölda af­brota, meðal ann­ars lík­ams­árás­ir, hót­an­ir og skemmd­ir á lög­reglu­bíl, fundu lögreglumenn í felum á háaloftinu heima hjá móður hans.

Maðurinn, sem var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 12. apríl, hefur orðið uppvís að níu líkamsárásum og er 22 málum, sem hann er talinn eiga aðild að, enn ólokið í réttarvörslukerfinu.

Þann 14. var lögregla kölluð að heimili manns í Eyjum vegna þess að áðurnefndur brotamaður var að ráðast á húsráðanda. Var hann með hníf og lýsti húsráðandi aðdraganda árásarinnar þannig að maðurinn hafi komið til hans og æst sig upp vegna sverðs sem hann hafi átt hjá húsráðanda, en sem lögregla hafði haldlagt. Kýldi maðurinn bæði og sparkaði í húsráðanda að því er fram kemur í úrskurði héraðsdóms.

Vitni eru sögð hafa verið að árásinni.

Lögregla lagði hald á hnífinn sem maðurinn var með, en þegar lögregla kom út aftur var búið að skera á alla hjólbarða lögreglubílsins sem fyrir vikið var óökufær.

Lögreglan fann svo árásarmanninn heima hjá móður hans, en þar hafði hann falið sig uppi á háalofti. Var hann í annarlegu ástandi er hann var handtekinn, barðist um, hrækti á lögreglumenn og hótaði þeim og fjölskyldum þeirra lífláti. 

Maðurinn var því næst færður í fangaklefa, en þangað inn hafði honum tekist að hafa með sér kveikjara og kveikti hann í teppi í klefanum. Lögreglumenn urðu fljótt varir við eldinn og slökktu. Leitað var þá á manninum á ný og fannst þá vasahnífur í innri buxnavasa hans. Vegna ástands mannsins var hins vegar ekki unnt að yfirheyra hann fyrr en daginn eftir.

Er það mat lögreglunnar í Vestmannaeyjum að maðurinn muni halda áfram að brjóta af sér, en rannsókn á málum hans er ekki lokið. Enn fremur segir lögregla rökstuddan grun um að maðurinn hafi rofið „í verulegum atriðum skilyrði sem honum voru sett í skilorðsbundnum dómi“.

Maðurinn hefur þegar hlotið 10 refsidóma og hefur verið dæmdur fyrir þrjár líkamsárásir, þar af tvær stórfelldar, fjóra þjófnaði, þrenn eignaspjöll, húsbrot, hótanir, vopnalagabrot, fíkniefnalagabrot og akstur undir áhrifum.

Þá er málum ólokið á hendur manninum, samtals 22, en tólf þeirra eru mál sem eru skilorðsrof á 12 mánaða fangelsisdómi sem hann hlaut í nóvember 2016. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert