„Þetta verður gert almennilega“

Framkvæmdir eru hafnar í Breiðholtsskóla.
Framkvæmdir eru hafnar í Breiðholtsskóla. mbl.is/Hari

„Við fögnum þessum framkvæmdum. Það var kominn tími á viðhald enda húsnæði skólans gamalt. Við lítum á þetta sem tækifæri fyrir okkur því þetta verður gert almennilega. Við fáum allt nýtt,“ segir Ásta Bjarney Elíasdóttir, skólastjóri Breiðholtsskóla, um framkvæmdir við skólann. 

Einni álmu með átta kennslustofum hefur verið lokað og framkvæmdir eru þegar hafnar. Þar kom í ljós leki í útvegg meðal annars meðfram glugga. Álman verður að mestu endurnýjuð. Reiknað er með að framkvæmdum ljúki í haust um leið og skólastarf hefst að nýju.  

Allir nemendur sem voru í þessum skólastofum voru fluttir annað innan skólans, meðal annars á bókasafnið og á frístundaheimilið svo fátt eitt sé nefnt. Skólastarfið raskast því ekki. „Það fer mjög vel um nemendurna,“ segir Ásta.

Starfsfólk kvartaði við Vinnueftirlitið

Starfsfólk skólans hafði sent Vinnueftirlitinu athugasemdir vegna loftgæða. Eftir fund sem haldinn var 16. nóvember í fyrra var ákveðið að fela Mannviti mælingar á loftgæðum í húsinu. Mannvit fór í tvær skoðunarferðir í skólann og tók ryk og efnissýni í bæði skiptin. Fyrri skoðunarferðin var 19. nóvember og sú seinni 8. janúar 2019.

Í efnissýni úr kennslustofu 2 kemur fram, í túlkun Mannvits á greiningum Náttúrufræðistofnunar Íslands, að þar hafi „[f]undist vísbendingar um ástand sem full ástæða er til að bregðast strax við“. Þetta kemur fram í minnisblaði Mannvits. 

„Daginn eftir að við fengum niðurstöðu úr sýnatökunni hófumst við strax handa,“ segir Ásta. Kennslustofu 2 í austurálmunni sem kom verst út var strax lokað og nemendur færðir til. Ekki kom til greina að halda kennslu áfram í þeirri stofu, að sögn Ástu. 

„Við höfum þurft að taka vel til enda kominn tími á það. Við erum ekki með staðfesta niðurstöðu um að mygla sé vandinn en ákváðum samt að meðhöndla þetta eins og það væri þannig,“ segir Ásta spurð hvort hlutum innan úr þessum kennslustofum verði fargað. 

Myglusveppir og sveppaþræðir á skrifstofu og í móttöku

Í niðurstöðum á tveimur ryksýnum í móttöku og á skrifstofu aðstoðarskólastjóra fundust myglusveppir og sveppaþræðir. Þetta kemur fram í rannsókn Náttúrufræðistofnunar Íslands á sex sýnum í Breiðholtsskóla sem voru tekin úr fyrri skoðunarferðinni.

Ekki fengust niðurstöður rannsóknar Náttúrufræðistofnunar Íslands á sýnum úr Breiðholtsskóla í seinni skoðunarferðinni. Í þeirri ferð voru tekin sýni úr álmunni sem búið er að loka.     

Áætlað er að framkvæmdum ljúki við Breiðholtsskóla í haust.
Áætlað er að framkvæmdum ljúki við Breiðholtsskóla í haust. mbl.is/Hari
Ásta Bjarney Elíasdóttir, skólastjóri Breiðholtsskóla.
Ásta Bjarney Elíasdóttir, skólastjóri Breiðholtsskóla. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert