Miðaði gasbyssu að höfði leigubílstjóra

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt mann til þriggja mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar …
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt mann til þriggja mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir að miða byssu að höfði leigubílstjóra. mbl.is/Þorsteinn

Maður var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku til þriggja mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir hótanir og vopnalagabrot. Miðaði hann gasloftbyssu að höfði leigubílstjóra og tók tvisvar í gikk hennar án þess að nokkuð gerðist, að því er fram kemur í dómi héraðsdóms.

Um er að ræða gasloftbyssu af tegundinni Daisy Powerline og hefur maðurinn ekki viðeigandi skotvopnaleyfi. Aðfaranótt 29. apríl 2017 gekk maðurinn með byssuna innanklæða á almannafæri áður en hann dró hana upp og miðaði að höfði leigubílstjórans.

Þrátt fyrir að taka í gikkinn gerðist ekkert og er athæfið sagt hafa verið til þess fallið að vekja ótta bílstjórans um líf sitt.

Gasloftbyssa af tegundinni Daisy Powerline.
Gasloftbyssa af tegundinni Daisy Powerline. Ljósmynd/James Case

Sakborningurinn játaði verknaðinn fyrir dómi, en hann hefur ekki áður gerst sekur um hegningarlagabrot. Hins vegar var honum gert að sæta 30 daga fangelsi skilorðsbundið með dómi sem féll árið 2016 fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Telst hann nú hafa brotið gegn því skilorði.

Hlaut maðurinn þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm og var gasloftbyssan gerð upptæk. Þá er honum gert að greiða leigubílstjóranum 200 þúsund krónur í miskabætur auk 200 þúsund króna fyrir málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert